139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

svör við fyrirspurnum.

[11:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Forseti. Ég vildi, undir liðnum fundarstjórn forseta, tjá virðulegum forseta og þingheimi að í dag sendi ég hæstv. velferðarráðherra bréf þar sem ég fer fram á að hann svari skriflegri fyrirspurn sem hann hefur fengið tvisvar, núna í seinna skiptið 7. desember sl., þar sem ég bað um upplýsingar um greiðslur til stofnana og einstaklinga og lögaðila frá Íbúðalánasjóði á árunum 2000–2008. Ég fékk í hvorugt skipti svar en mismunandi útúrsnúninga og fór þess á leit að fá lögfræðiálit vegna þessa, sem kvað skýrt á um það að hæstv. ráðherra bæri að svara þessum fyrirspurnum.

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli fyrir þingið að það verði gert og sem allra fyrst, því menn hafa nú haft (Forseti hringir.) nokkra mánuði til að skoða þetta mál.