139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[11:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps og framsöguræðu hans. Það eru nokkrar spurningar sem vakna þegar þetta mál kemur hér á dagskrá þingsins.

Í fyrsta lagi vildi ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort þær takmarkanir á gildissviði laganna sem er að finna í 2. gr. frumvarpsins samrýmist tilskipuninni sem um er að ræða og Evrópuréttinum. Ég hef á tilfinningunni við stutta yfirferð á málinu að að minnsta kosti sé gengið eins langt og talinn er möguleiki á til þess að þrengja gildissviðið, þ.e. að undanskilja sem flest gildissvið reglnanna um frjáls þjónustuviðskipti. Ég er að velta því fyrir mér hvort fram hafi farið einhver skipulögð athugun á því, hugsanlega með samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA, hvort þær takmarkanir sem þarna er að finna verða taldar standast.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort vera kunni að þar sem í frumvarpstextanum er vísað til almannahagsmuna eða almannaþjónustu sem ekki lýtur efnahagslegum lögmálum, eða er ekki í efnahagslegu skyni, sé um að ræða það óljóst ákvæði að dómstólum sé einfaldlega falið að kveða (Forseti hringir.) upp úr um það hvað kemur til með að felast í þessu.