139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[12:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er rétt, eins og kom fram í máli ráðherra, að Eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlitshlutverk með löggjöf á þessum sviðum og venjan hefur verið sú að þegar löggjöf liggur fyrir frá Alþingi fer Eftirlitsstofnunin yfir það og leggur mat sitt á það hvort þær reglur sem þar eru staðfestar samræmist málinu. Við hér í þinginu verðum að reyna að reyna að leggja okkar mat á þetta meðan á meðferð málsins stendur. Það kemur þá í hlut hv. viðskiptanefndar að fjalla um þennan þátt sem ég held að hljóti að verða mjög veigamikill í efnislegri umfjöllun hennar um málið, að leggja mat á þetta.

Við þekkjum það frá umræðu um þetta mál frá fyrri tíð að annar stjórnarflokkurinn, og þá sérstaklega einn hæstv. ráðherra úr þeim stjórnarflokki, hefur mjög borið þetta mál fyrir brjósti, meðal annars verið með sérstakar bókanir um þetta. Tilhneigingin er því sú, eins og sjá má á frumvarpinu, að ganga eins langt í því (Forseti hringir.) að undanþiggja opinbera þjónustu frá gildissviðinu og kostur er talinn.