139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

neytendalán.

724. mál
[13:33]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um neytendalán. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, til að setja umgjörð og ramma um veitingu smálána til að tryggja neytendavernd og réttindi lántaka.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur við undirbúning þessa frumvarps átt samráð við ýmsa aðila, t.d. umboðsmann skuldara, hjálparstofnanir, Velferðarvaktina, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu. Samstaða er um að ríkir almannahagsmunir liggi því til grundvallar að setja skýrar reglur um veitingu smálána.

Af þeim umsögnum sem bárust er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að núverandi framkvæmd við veitingu smálána sé varasöm. Lán eru veitt án þess að greiðslumat hafi farið fram eða greiðslugeta metin að öðru leyti. Auglýsingar og annað kynningarefni er ekki nægjanlega skýrt til að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun um að taka þessi lán og kostnaður lántaka er gríðarlega hár eins og farið er ágætlega yfir í greinargerð með þessu frumvarpi. Smálán eru auðfengin og fljótafgreidd sem gerir viðkvæmt og illa sett fólk sérstaklega berskjaldað fyrir markaðssetningu þeirra.

Fram kemur í umsögn Velferðarvaktarinnar að meðal viðkvæmra hópa sé ungt fólk í fjárþröng, þar með talið fjölskyldufólk, fólk með geðfötlun og erlendir ríkisborgarar í fjárþröng, jafnframt að markhópur smálánafyrirtækjanna sé fjölbreyttur, m.a. notendur félagsþjónustu sveitarfélaga, ekki síst unga fólkið, enda beinast auglýsingarnar að því. Þau vandamál sem geta fylgt veitingu smálána eru ekki séríslensk. Víða á Norðurlöndunum hafa stjórnvöld séð sig knúin til að bregðast við starfsemi smálánafyrirtækja með löggjöf. Í frumvarpinu er byggt á norrænum fyrirmyndum og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um neytendalán. Gerð er tillaga um að starfsemi smálánafyrirtækja heyri undir neytendalöggjöfina líkt og gert er í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi þar sem eftirlit með smálánum er í höndum systurstofnana Neytendastofu.

Lagt er til að undantekningarákvæði laga um neytendalán verði þrengd svo smálán falli að öllu leyti innan gildissviðs þeirra. Annars vegar er lagt til að lánasamningar undir 15.000 kr. verði ekki lengur undanskildir og hins vegar að ekki sé nægilegt að samningar séu til skemmri tíma en þriggja mánaða til að vera undanskildir, nema þeir hafi í för með sér óverulegan kostnað fyrir neytandann. Hugtakið óverulegur kostnaður er ekki skilgreint í frumvarpinu, enda mjög erfitt að skilgreina svo huglægt hugtak fyrir fram. Mat á slíku verður að fara fram í hverju tilviki fyrir sig. Ákvæðið er efnislega samhljóða undantekningarákvæðum neytendalánatilskipunarinnar þar sem sama leið er farin og hér. Markmið frumvarpsins er annars vegar að tryggja neytendum þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að bera kjör smálána saman við kjör á öðrum lánum og hins vegar að greiðslumat fari fram áður en lánsumsókn er samþykkt. Lagt er til að veitendur smálána verði skyldaðir til að birta ákveðnar lágmarksupplýsingar um þau lán sem þeir bjóða í kynningarefni sínu og að þeir verði að framkvæma greiðslumat áður en lánsumsókn er samþykkt.

Frumvarpinu hefur verið breytt lítillega frá því að fjármálaráðuneytið vann kostnaðarumsögn sína, en eins og þar kemur fram annast Neytendastofa eftirlit með neytendalögum og lögum um eftirlit með markaðssetningu og viðskiptaháttum. Það er ekki gert ráð fyrir að breytingarnar á frumvarpinu leiði til breytinga á þeirri niðurstöðu sem fjármálaráðuneytið hefur komist að um kostnaðaráhrif þessa frumvarps.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til viðskiptanefndar.