139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[13:48]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hennar. Ég hjó eftir að hún ræddi um skráningu fyrirtækja í tengslum við þetta. Ég minnist ágætrar vinnu okkar í iðnaðarnefnd fyrr á tíð varðandi þetta atriði en þá var rætt hvernig við gætum tryggt að öll umferð tengd vinnu við þetta færi í gegnum íslenskar hafnir. Ég vildi inna ráðherra hæstv. eftir því hvort þetta kallaði á einhverjar breytingar í þeim efnum og fá svör um þann þátt.

Ég hef líka áhuga á að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort komið hafi til tals hvernig umsýslu um þessi mál yrði háttað. Ég minnist þess, þegar þetta var unnið hér í eina tíð, að þá var rætt um hvort möguleiki væri að vista eitthvað af þessum verkefnum við Háskólann á Akureyri til að efla þar vísinda- og rannsóknarstarfsemi og byggja upp þá þekkingu sem þarf til, hugsanlega á vegum Orkustofnunar en í gegnum einhverja starfsstöð við Háskólann á Akureyri. Mér þætti vænt um að heyra sjónarmið ráðherra varðandi þessar tvær spurningar.