139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[13:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er alveg rétt, tíminn líður hratt á gervihnattaöld, eins og sungið var.

Varðandi athugasemdirnar sem ESA hefur gert og málum sé skipað í sama farveg eins og gert er í Noregi. Ég minnist þess að á árinu 2008 var vísað til fordæmis frá Færeyjum. Ég hef mælst til þess að hv. iðnaðarnefnd skoði þennan þátt þegar málið kemur þangað inn en ég fagna þeim áherslum ráðherra að ekki sé verið að gera grunnbreytingar á þeim markmiðum sem sett voru í upphafi, sérstaklega því að nýta þá fjármuni sem hugsanlega kunna að koma inn fyrir leyfin til að efla rannsóknir og þekkingu á því svæði sem mest tengist væntanlegu rannsóknarsvæði.

Það sem ég var að höggva eftir og leggja áherslu á var að vísindahluti starfseminnar gæti nýst í sambandi við uppbyggingu orkuseturs við Háskólann á Akureyri. Þar er ákveðinn vísindagrunnur þegar fyrir en ekki skal standa á mér að styðja það að efla aðra vinnu, sérstaklega á Norðausturhorninu sem er mjög veikt í byggðalegu tilliti.

Þetta horfir líka kannski betur til þegar við fáum hingað þá þingsályktunartillögu um rannsóknir á olíu og gasi við Skjálfanda sem sá sem hér stendur flutti ásamt öðrum þingmönnum í kjördæminu og hv. iðnaðarnefnd hefur afgreitt og mælst til að við samþykkjum og komum í ákveðið ferli. Ég vænti einnig góðs samstarfs við iðnaðarráðherra um það mál.