139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[13:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Tilefni þess frumvarps sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur hér flutt er af tvennum toga. Það er annars vegar liður í undirbúningi fyrir næsta útboð á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolefnis í íslenskri efnahagslögsögu og hins vegar kemur það til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við þá kröfu núgildandi laga að leyfishafi verði að vera skráður hér á landi. Það er kannski ekkert óeðlilegt við það að sú krafa skuli koma hér fram. Ég hygg að hitt hafi verið fulllangt gengið, miðað við það kerfi sem er í gangi út um alla Evrópu, að menn geti ekki sett þess konar atriði inn í frumvarp, þetta verði að vera opið fyrir alla. Því fylgja bæði kostir og gallar eins og gengur og gerist.

Í fyrsta lagi vil ég ræða um undirbúninginn að næsta útboði, sem ég fagna alveg sérstaklega. Eins og hér hefur komið fram, bæði í frumvarpinu og í ræðu hæstv. ráðherra, er næsta útboð á sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu á tímbilinu frá 1. ágúst 2011 til 1. desember 2011 og ég fagna því sérstaklega að þetta gerist í framhaldi af því. Fyrsta útboðið olli miklum vonbrigðum, tilboðin voru opnuð í upphafi árs 2009, tilboðin komu frá tveimur aðilum en báðir drógu sig til baka frá því. Þar var meðal annars vísað til erfiðleika tengdra því að verða fyrirsjáanlega eini sérleyfishafinn með rannsóknir á svæðinu auk gagnrýni á fyrirkomulag skattamála. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt fram frumvarp um skattamál sem ég skal viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér, en ég vona að þar sé komið til móts við þær athugasemdir sem þar komu fram. Það er nú einu sinni svo að í þessu fjölþjóðlega og alþjóðlega kerfi öllu og fyrirtækjarekstri þýðir ekkert fyrir okkur hér uppi á Íslandi að vera með einhver önnur skattamál en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Það er fráhrindandi og gerir það þá að verkum, eins og þarna gerðist, að aðilar hrökkva frá. Það er ekki til bóta.

Í þessu sambandi má nefna, virðulegi forseti, vinnu, bæði iðnaðarnefndar og efnahags- og skattanefndar, við það að samræma skattkerfi fyrir netþjónabú sem loksins tókst á síðustu stundu og hygg ég að fyrra skattkerfi sem var gagnvart því hafi skaðað okkur og jafnvel orðið til þess að einhverjir hættu við. Bágt efnahagsástand með tilheyrandi skorti á fjármagni var ein af ástæðunum fyrir því að fyrirtækin hrukku frá þessu á sínum tíma, og mikil áhætta fylgdi því að hefja þessar rannsóknir. Einnig kom annað atriði inn í myndina, sem er ákaflega merkilegt að lesa um nú sem eina af ástæðunum fyrir því að fyrirtækin hættu við, þ.e. lágt heimsmarkaðsverð á olíu. Þarna er minnst á lágt heimsmarkaðsverð á olíu sem eina af ástæðunum fyrir að menn hættu við. Nú ætla ég ekki að fagna háu heimsmarkaðsverði á olíu, en því er væntanlega þannig háttað nú að hátt olíuverð er mikill plús fyrir væntanlega bjóðendur, þó svo að allur heimurinn líði fyrir það með minnkandi kaupmætti og dýrtíð.

Ég vona að skattafrumvarpið sé fullnægjandi, það verður auðvitað unnið í efnahags- og skattanefnd. Ég hygg að samvinna verði milli iðnaðarnefndar, sem þetta frumvarp kemur til, og efnahags- og skattanefndar, sem frumvarp fjármálaráðherra kemur til, að við munum vinna það þar saman.

Jafnframt hefur komið fram að mikil og náin samvinna hefur verið við norsk stjórnvöld á þessu sviði, við að undirbúa þetta, og ég tel það mjög gott. Þá ætla ég að leyfa mér að nefna það sem hv. þingmaður, meðnefndarmaður minn í iðnaðarnefnd, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, hefur nefnt, og ég get að vissu leyti tekið undir, mér finnst það hlutur sem full ástæða er til að skoða enn betur — og í 1. umr. væri kannski gaman að heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra um það — en það snýr sem sagt að því hvort við Íslendingar eigum að ganga til enn frekara samstarfs við Norðmenn um rannsóknir og fleira á þessu svæði með væntanlega vinnslu í huga.

Ég held, virðulegi forseti, að þó svo það væri gaman að við Íslendingar gætum gert þetta einir þá ættum við aðeins að átta okkur á takmörkum okkar. Eftir efnahagshrunið 2008, eftir þá erfiðleika sem við erum í núna og eigum því miður eftir að vera í á komandi árum, og í ljósi þeirrar staðreyndar að hér búa einungis 315 þúsund manns ættum við að hugleiða slíkt samstarf. Mér finnst full ástæða til að það verði kannað mjög gaumgæfilega hvort við eigum ekki að útvíkka þetta samstarf við frændur okkar Norðmenn enn frekar með tilliti til þessa. Samlegðaráhrifin eru ótvíræð af samstarfi við Norðmenn, með alla sína þekkingu og öll sín tæki og tól hvað þetta varðar. Það á ekki að vera þannig að við verðum bara hér og fáum eitthvað lítið út úr því. Það er siðaðra manna háttur og góðra granna, eins og Norðmanna og Íslendinga, og þar að auki frænda, að útbúa samning hvað þetta varðar.

Ég vil nefna þetta hér, virðulegi forseti, ásamt ýmsu öðru góðu sem fram kemur í frumvarpinu. Ég hlakka til að fá það til nefndarinnar. Boðað hefur verið til fundar í iðnaðarnefnd strax á morgun til að taka fyrir þau frumvörp sem verið er að mæla fyrir hér og koma þeim út til umsagnar. Við ætlum að vinna þetta hratt og vel. Þetta eru mörg þýðingarmikil mál sem við þurfum að klára áður en þing hættir í vor.

Ég ítreka enn einu sinni það sem ég hef sagt með Drekasvæðið, að það skuli vera boðið út: Við verðum stundum að leyfa okkur að horfa til langs tíma og jafnvel dálítið langt fram í tímann og það er einfaldlega þannig með þetta mál. Það gerist kannski ekki á næsta ári að menn fari að sjá olíu renna upp, en hugmyndin er góð. Við þurfum að vinna þetta snemma og við erum að gera það hér. Og ég hika ekki við að halda því fram að inn í vinnu við samgönguáætlun á norðausturhorninu, sem var alveg sérstaklega illa statt hvað varðar samgöngur, blandaðist hugsanleg olíuleit á Drekasvæðinu, olíuvinnsla og umfang. Við sjáum það sem verið er að gera á Vopnafirði og í Langanesbyggð, hugmyndir um höfn þar, og menn búa sig undir að geta tekið við þjónustuaðilum. Þetta voru stór og veigamikil rök fyrir stórkostlegum vegaframkvæmdum til Vopnafjarðar, með uppbyggingu á öllum veginum þar, þeim 50 km sem þar eru, sem lýkur í haust, þá verður það byggðarlag loksins komið í almennilegt vegasamband — og svo aftur Hófaskarðsleiðin sem er mikil stytting til Langanesbyggðar og svo tenging þar á milli sem bíður og þar er slæmt vegasamband.

Þessir þættir vega inn í þetta líka. Þó svo að umræddir staðir hafi sannarlega átt þetta inni — ég hef stundum sagt að menn eigi að biðjast afsökunar á því að almennilegt vegasamband til staða sé fyrst að komast á árið 2011 eða 2012. Maður hugsar vestur á firði, að menn eigi að biðjast afsökunar á ástandinu þar, en þetta voru atriði sem blönduðust inn í þessar framkvæmdir á norðausturhorninu. Meðal annars þess vegna er þetta á góðri leið núna þannig að það stendur ekki á þessu, þetta verður ekki þröskuldur.

Ég vil svo segja það líka, virðulegi forseti, vegna þess að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi það hér áðan, að meiri hluti iðnaðarnefndar hefur jafnframt tekið þingsályktunartillögu sem hann flutti og fjallað um hana. Búið er að dreifa hér nefndaráliti á þskj. 1264 þar sem nefndin tekur undir þá þætti sem varða næstu skref í olíu- og gasrannsóknum á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi, á Skjálfanda nánar tiltekið. Iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið, fengið til sín fulltrúa frá Orkustofnun og öðrum. Nefndin sem slík, ekki þó alveg öll, stendur að nefndaráliti þar sem við leggjum til að þingsályktunartillagan verði samþykkt sem ályktun til ríkisstjórnar um það að útvegað verði fé sem vantar þarna, einar 13 milljónir, til að hefja nauðsynlegar rannsóknir á landgrunni Íslands, þ.e. kanna hvort móðurberg finnist þar og hvort það sé nægilega þroskað, með sýnatökum, einum fimm, sex, ef ég man rétt, og sem sagt að það sé mikilvægt skref í að kanna hvort þessi olíuvænu setlög eða gas sé að finna á landgrunni Íslands. Þjóð sem er í slíkum hremmingum sem við erum í, með nóg af kostnaði en lítið af tekjum, getur ekki látið slíkt fram hjá sér fara. Þannig að þessi tillaga er líka á dagskrá og verður rædd hér sem sjálfstæður liður, en ég gat ekki látið hjá líða að nefna hana í sömu andrá og við ræðum þessi mikilvægu mál, þ.e. annars vegar á Drekasvæðinu og hins vegar á landgrunni Íslands undir Norðausturlandi. Frumvarpið er mjög mikilvægt og einnig nefndarálitið og þingsályktunartillagan sem ég gat um. Þarna þurfum við að hugsa langt fram í tímann. Ég tel að við séum að bregðast við því hér á hinu háa Alþingi nú.