139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:10]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallaði eftir sýn minni á þéttara samstarf við Norðmenn. Þannig er mál með vexti að við höfum verið að þétta það samstarf verulega síðastliðin tvö ár. Það sem hefur fengist út úr því er meðal annars það frumvarp sem hér er, þar sem við erum að laga umhverfi okkar að umhverfi Norðmanna. En svo megum við heldur ekki gleyma því að við Íslendingar erum, eins og staðan er núna, komin lengra í rannsóknum á svæðinu en Norðmenn þannig að Norðmenn hafa líka notið góðs af því. Þeir hafa farið í rannsóknarferðum okkar á svæðið til að kynna sér það og meta. Að því leytinu til erum við því komin í mjög þétt samstarf á rannsóknarsviðinu.

Mín sýn á það hvert þetta gæti leitt er sú að ég er opin fyrir öllum möguleikum. Við þurfum auðvitað að horfa til þess hvað er best fyrir okkur Íslendinga og hvað skilar okkur mestu út úr þessu svæði. Það er, held ég, það markmið sem við eigum að hafa í huga. Ég held við eigum að stíga eitt skref í einu. Við eigum að fara í þetta útboð í ágúst, við eigum að halda áfram þessu góða samstarfi við Norðmenn um rannsóknir og líka samanburð á skattumhverfi og almennu rekstrarumhverfi þeirra aðila sem hingað gætu komið og fengið þessi leyfi. Síðan eigum við að vera algjörlega opin fyrir framhaldinu en þó alltaf með það markmið að leiðarljósi að sú leið sem við veljum skili Íslendingum mestum arði og mestum tekjum af þessari starfsemi allri.