139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

719. mál
[14:13]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minntist ekki á það í máli mínu hér áðan að við erum auðvitað með sameiginlega hagsmuni á svæðinu, þ.e. að þó þarna sé ákveðin lína og við segjum Noregsmegin og Íslandsmegin þá eiga Norðmenn hagsmuna að gæta á ákveðnum reitum okkar megin og við þeirra megin. Við eigum meira að segja töluvert mikilla hagsmuna að gæta Noregsmegin, sem segir að við munum alltaf fá töluvert háa hlutdeild í þeim tekjum sem þeir afla á svæðinu. Þetta skiptir líka máli.

Vissulega erum við í verulegum tengslum við Norðmenn en ég ætla líka að ítreka að þó að ég sé opin fyrir þessu er ég ekki að segja að ég telji að núna sé það rétta leiðin að fara. Ég segi eingöngu: Stígum eitt skref í einu. Við erum í þéttu samstarfi við Norðmenn. Þróum það, styrkjum það, það gefur góða raun að vinna þétt með þeim í þessum efnum og þess vegna eigum við að halda því áfram. Hvert það svo leiðir segir árangur þeirra aðgerða sem við erum að ráðast í núna — þetta samstarf og þróun þess verður það sem mun leiða í ljós hvert þetta samstarf fer. Eins og mál standa núna erum við á jafningjagrunni að vinna saman á þessu svæði. Við erum ekki bara að þiggja frá Norðmönnum heldur erum við líka að gefa, þ.e. í gegnum þær rannsóknir sem við höfum unnið Íslandsmegin.