139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:29]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að samkvæmt þessu frumvarpi sé gert ráð fyrir því að eftir ýmist 30 ár eða 40 ár geti aðili, ef hann uppfyllir þau skilyrði sem fram koma í frumvarpinu, fengið forgang og viðræður um endursamning til allt að 20 ára til viðbótar. En að þeim tíma liðnum hlýtur samningaleiðin að vera opin, opnari en hér kemur fram þannig að menn hafi ekki forgang til samninga, en vissulega hljóta þeir sem auðlindina eiga að hafa rétt til að opna fyrir samninga að nýju ætli þeir sér að halda áfram að nýta auðlindina. Við horfum því til þess að afnotahafi hafi eingöngu forgang einu sinni en ekki oftar og síðan sé það í hendi þeirra sem með auðlindina fara eftir 50 eða 60 ár að taka ákvörðun um framhaldið.