139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:31]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að í þessum efnum megi ekki vera neinir lausir endar og iðnaðarnefnd þurfi að fara vel í málið. Við erum búin að gera það í iðnaðarráðuneytinu og líka nefndin um orkustefnuna og sömuleiðis auðlindanefnd forsætisráðherra og þetta er niðurstaðan samanlögð.

Ég held að hv. þingmaður og ég séum sammála um að leiðangurinn núna hljóti að snúast um að ná sátt á þessum vettvangi þannig að menn komist að skynsamlegri niðurstöðu um hversu langt sé hægt að ganga til að friður komist á um þessa starfsemi hér á landi. Um jafnlangan tíma og nú er með endalausum framlengingum um 65 ár mun ekki verða sátt í okkar samfélagi. Því tel ég að sá leiðangur sem við leggjum af stað í núna skipti máli fyrir starfsumhverfi þeirra fyrirtækja sem véla um jafnmikilvæga hagsmuni og orkuauðlindir landsins.