139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu, tel það nokkuð merkilegt og gott að mörgu leyti við fyrstu sýn. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að náið og gott samstarf hefði verið haft við hagsmunaaðila þegar málið var unnið. Kannski mættu sumir aðrir hæstv. ráðherrar taka sér það til fyrirmyndar þegar unnið er að sambærilegum málum.

Mig langar aðeins að staldra við það sem hæstv. ráðherra kom hér inn á í andsvari sínu við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hæstv. ráðherra sagðist telja 20 ár of stuttan tíma fyrir vatnsaflið og jarðhitann en of langan fyrir sjávarútveginn. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvað hæstv. ráðherra telji eðlilegan tíma fyrir sjávarútveginn. Hversu langur þarf sá nýtingarsamningur að vera að mati hæstv. ráðherra?