139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hérna er um eðlisólíkar auðlindir að ræða, annars vegar fiskstofna í sjónum sem menn þurfa að vakta hversu stórir eru hverju sinni þegar gefnar eru út heimildir til veiða og hins vegar vatnsaflsauðlindina sem menn geta vitað nánast upp á megavatt hversu miklu muni skila til lengri tíma litið. Þetta eru svo eðlisólíkar auðlindir að þessu leytinu til. Við erum annars vegar að tala um mjög viðkvæma auðlind sem mjög erfitt er að spá fyrir um til lengri tíma hversu mikið muni gefa af sér og hversu stór er og verður og hins vegar um útreiknanlega auðlind eins og ég nefndi áðan. Mér finnst gríðarlega mikill munur á því með hvaða hætti þær eru síðan nýttar og leyfi veitt til nýtingar á þeim. Þetta verðum við að hafa í huga.

Ég held, virðulegi forseti, að við útkljáum sjávarútvegsmálin ekki hér, við hv. þingmaður, í mínútuandsvörum í umræðum um orkuauðlindirnar.