139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í gildandi lögum stendur að veita megi svona réttindi til allt að 65 ára, þess vegna til 20 ára. Mér finnst frumvarpið allt saman bera vott um tortryggni á getu stjórnsýslunnar til að gera skynsamlega samninga. Ég spyr hv. þingmann hvað það þýði t.d. þegar sagt er að komi „í ljós að auðlind skv. 1. mgr. er verulega stærri eða minni“ skuli endurskoða samninginn. Er þetta ekki eitthvað sem stendur eðlilega í samningi sem skynsamir menn gera?

Svo spyr ég: Er ekki eðlilegt að fjármálaráðherra úthluti og selji þessi réttindi en ekki iðnaðarráðherra þar sem fjármálaráðherra sér um aðrar eignir ríkisins? Þar á meðal mundi ég telja þessa eign en iðnaðarráðherra sér hins vegar um allt regluverkið í kringum þessar auðlindir. Það gæti rekist á ef hann bæði veitir heimild til sölu eða leigu og setur jafnframt regluverkið.