139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum og lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Eins og fram hefur komið hefur verið ágreiningur um árafjöldann í lögunum, um það hversu lengi samningar geta staðið. Eins og þetta er í dag er fyrsti áfangi 65 ár. Mörgum hefur þótt það langur tími og þess vegna koma fram þær breytingar sem hér eru kynntar til sögunnar. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að 30+20 ár sé of skammur tími. Rökin fyrir því eru þau að virkjanir, hvort heldur í jarðhita eða vatni, hafa gríðarlega langan afskriftatíma og gríðarlega langan líftíma og sá líftími er mun lengri en hér kemur fram.

Við vitum að hægt er að nýta slíkar virkjanir, t.d. eins og í vatnsafli, í allt að, ja, við vitum eiginlega ekki hversu lengi það er hægt, t.d. eru fyrstu virkjanirnar á Íslandi enn þá starfræktar, að vísu afskrifaðar, þannig að ég sé ekki alveg fyrir mér hvað gerist eftir t.d. 30 ár. Ef búið er að setja upp vatnsaflsvirkjun sem síðan er afskrifuð á 30 árum eða á mun skemmri tíma en líftími virkjunarinnar er, stendur virkjunin þá bara óhreyfð eða verða þeir sem eru með leyfið látnir rífa hana niður, eða hvað gerist?

Það er ljóst að forgangur er í 20 ár í viðbót. Í námavinnslu er eðlilegt að þetta séu 35+35 ár. Þar er ekki talað um forgang heldur að leyfið sé framlengt um 35 ár nema einhverjar sérstakar ástæður séu til þess að framlengja ekki.

Með því að afskrifa virkjanir á skemmri tíma en 30 árum er ljóst að verið að hækka raforkuverð gríðarlega mikið bæði til neytenda og til iðnaðar sem kaupir af orkuframleiðendunum. Það mun leiða til þess að samkeppnisforskot íslenskra raforkufyrirtækja mun minnka mjög mikið frá því sem nú er. Jafnframt er ljóst að það verður mun flóknara og erfiðara að fjármagna slík mannvirki eftir að þessar reglur hafa verið teknar upp vegna þess að bankastofnanir horfa einfaldlega á það hversu góðan aðgang þau fyrirtæki sem ætla sér að nýta orkuna hafa að auðlindinni. Ef afskriftatíminn er svona stuttur og algjör óvissa um hvert framhaldið verður vilja menn síður lána í slíkar virkjanir.

Fiskveiðistjórnarkerfið bar hér á góma. Hæstv. ráðherra sagði að vegna þess að rannsaka þyrfti auðlindina á hverju ári væri það allt öðruvísi. Að vissu leyti er það öðruvísi vegna þess að það er meiri óvissa í fiskveiðum, meiri óvissa um stærð auðlindarinnar en t.d. í vatnsaflsvirkjunum og þess vegna eru rökin einmitt í þá áttina að þá eigi tíminn að vera lengri, að eftir því sem óvissan sé meiri þeim mun lengri tíma eigi samningurinn að standa.

Hæstv. ráðherra hélt hér líka öðru fram, að það væri hægt að reikna upp á megavatt hvað auðlindin mundi gefa mikið af sér. Það er vissulega rétt í tilfelli vatnsaflsvirkjana en í heita vatninu er þetta allt annað dæmi, þar er mun meiri óvissa um hvað auðlindir gefa af sér jafnframt því sem það getur verið sveiflukennt. Þær auðlindir eru mun viðkvæmari en vatnsaflsauðlindirnar og jafnvel er hægt að nýta þær það mikið að það gangi á heitavatnsgeyma. Sumir segja jafnvel að líta beri á jarðhita eins og námur, að þar sé um að ræða endanlegt magn, alla vega á mælikvarða mannsævinnar, að það geti verið að við þurfum að taka mun meira úr auðlindinni en fer í hana aftur og þar af leiðandi sé hún endanleg. Það þýðir að of skammur afskriftatími á þeim mannvirkjum sem þurfa að vera til staðar til að nýta auðlindina getur leitt til þess að auðlindin sé ekki nýtt á sjálfbæran hátt. Þar sem sú ríkisstjórn sem nú er við völd vill kenna sig við sjálfbærni ætti það að vera kappsmál fyrir hana að koma í veg fyrir að slíkt gerist, að auðlindir eins og jarðhiti séu nýttar á ósjálfbæran hátt, og ætti þar af leiðandi að hafa tímann fremur lengri en skemmri á þessum samningum.

Á dögunum lýsti einn af forkólfum jarðhitafyrirtækjanna á Íslandi því yfir að ef þetta frumvarp yrði óbreytt að lögum væri það síðasti naglinn í líkkistu jarðhitanýtingar á Íslandi. Þetta eru stór og sterk orð og ljóst er að eftir að málið er komið inn á borð nefndarinnar, iðnaðarnefndar, þarf að krefja þann mann svara við þessum yfirlýsingum og hvað hann eigi nákvæmlega við. En ég þykist skynja að það sé einmitt út af þeim hlutum sem ég hef nefnt hér, að þetta sé of skammur tími til að hægt sé að fjármagna á hagkvæman hátt, að það þurfi að afskrifa virkjanir of hratt og síðan náttúrlega að sjálfbærni sé ógnað, sérstaklega í jarðhitavirkjunum. Mér sýnast því raðast upp ansi margir gallar við það að stytta tímann jafnmikið og hér er lagt til.

Ef við reynum aðeins að fara hér úr teoríunni yfir í praktíkina er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig orkukaupendurnir mundu bregðast við. Ef við skoðum t.d. álverið í Straumsvík, sem núna er 44 ára gamalt, að nú væru þeir að búa sig undir annaðhvort að semja við nýja orkuframleiðendur eða að loka verksmiðjunni og rífa hana niður vegna þess að einhver regla segði að orkuseljandinn mætti ekki vera með samning nema til 30 ára og gæti hugsanlega framlengt um 20 ár í viðbót til 50 ára. Þannig að eftir sex ár, ef þeir hefðu eingöngu aðgang að einum orkusala, væru þeir væntanlega að fara að loka álverinu í Straumsvík.

Þrátt fyrir að 30+20 ár virki langur tími miðað við mannsævina er þetta örskotsstund í líftíma stórfyrirtækja. Það er gaman að segja frá því að elsta fyrirtækið í Svíþjóð, gamla Kopparberget, er núna að verða 600 ára gamalt. Líftími fyrirtækja er því allt annar en líftími okkar hinna dauðlegu. Að vísu getur hann verið styttri eins og við sáum núna í hruninu þegar yfir 6 þúsund fyrirtæki fóru á hausinn í einu vetfangi en það er lengri og mun sorglegri saga en þetta.

Það er ljóst að fjallað verður vel um það í nefndinni hvort iðnaðarnefnd kemur með breytingartillögur þar sem tíminn verður lengdur. Það er bæði hagkvæmt út frá öllum viðskiptalegum mælikvörðum og tryggir líka betur sjálfbærni auðlinda, sérstaklega jarðhitaauðlindarinnar, og að nýtingin verði ekki of hröð. En ég læt hér lokið máli mínu.