139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala mjög lengi í þessari umferð. Ég fagna því í raun að við ætlum að endurskoða árafjöldann varðandi nýtingu eða leigu á auðlindunum okkar. Ég held að 65 ár sé vel í lagt ásamt annarri framlengingu o.s.frv. en við þurfum að sjálfsögðu að gæta skynsemi í því eins og öllu öðru. Við þurfum að hafa þennan tíma þannig að fjárfesting geti borgað sig í geiranum og í þessum greinum og að verð orkunnar eða þess sem við erum að leigja tímabundið sé með þeim hætti að það dragi ekki úr möguleikum til framkvæmda eða til að nýta auðlindina. Það þarf væntanlega alltaf að finna einhvern milliveg sem uppfyllir þessi skilyrði.

Þegar ég les núna mjög lauslega, ég tek það fram, og hratt þetta frumvarp dettur mér í hug að það sé verið að gera heldur mikinn greinarmun á auðlindum landsins með því að horfa til sjávarútvegsins, svo dæmi sé tekið, því að það hefur verið rætt víða og m.a. í hinni svokölluðu sáttanefnd sem skipuð var varðandi fiskveiðistjórnarkerfið, hvort reyna ætti að taka upp og skoða samræmda auðlindastefnu, þ.e. að setja auðlindir okkar, sjávarútveginn, vatn, vind, sjó og annað, inn í svipaðan ramma sem þokkaleg sátt næðist um, tímaramma varðandi útleigu og þess háttar. Auðvitað eru þessar greinar misjafnar, það þýðir ekkert að horfa fram hjá því.

Ég hjó eftir því áðan hjá hæstv. ráðherra að sjávarútvegur og orkuvinnsla væru eðlisólíkar greinar. Ég get tekið undir það. Það er hins vegar þannig að þegar orkuvinnsla er hafin, þegar búið er að virkja, hvort sem það er borhola eða vatnsaflsvirkjun, er komin nokkuð mikil vissa fyrir því sem fram undan er. Í sjávarútveginum er óvissan hins vegar gríðarlega mikil. Þar af leiðandi má segja að það sé í rauninni rökrétt út frá því að gefinn sé lengri tími í sjávarútvegi en varðandi orkuauðlindirnar. Að sjálfsögðu spila önnur sjónarmið inn í, svo sem stærð fjárfestinga og þess háttar, þannig að það þarf að gæta sanngirni í þessu öllu.

Ég hafna því a.m.k. að ekki sé hægt að gera einhvern samanburð þarna og sá samanburður verður vitanlega að vera sanngjarn. Því nefni ég þetta að óvissan og áhættan í sjávarútvegi er mun meiri en í orkuvinnslunni vegna þess að aflaheimildum er eins og staðan er í dag úthlutað til eins árs í senn. Það þarf lítið til þess að kippa grundvellinum undan þeirri atvinnugrein. Það má velta fyrir sér hvort hægt sé að úthluta aflaheimildum til lengri tíma og skapa þannig einhvern stöðugleika en það er alveg ljóst að áhættan er mun meiri þar.

Við getum velt því fyrir okkur hvort sá árafjöldi sem hér er nefndur sé eðlilegur. Um það munum við fjalla væntanlega í iðnaðarnefnd. Ég velti því fyrir mér hvort þetta stangist nokkuð á í jafnræði, þ.e. að eitt skuli gilda um eina auðlind en annað um aðra. Ég velti líka því fyrir mér hvaða áhrif þetta hafi á fjárfestingar eins og ég sagði áðan, og hvort rétt sé að vera með samræmda auðlindastefnu fyrir allar auðlindir sem við mátum svo allt annað inn í.

Ég geri hins vegar ekki athugasemdir við það að við endurskoðum árafjöldann sem við erum að tala um en ég hvet þingheim og alla til að velta því fyrir sér hvað er sanngjarnt og eðlilegt í hverju tilviki fyrir sig og að bera saman auðlindirnar.

Ég fagna því, frú forseti, að við fáum málið til efnislegrar meðferðar í iðnaðarnefnd en það er alveg ljóst að það mun hafa áhrif fá umræðuna, umfjöllun um aðrar auðlindir, því að samanburðinn þurfum við vissulega að gera. Við þurfum að geta fært rök fyrir því af hverju þetta er svona með orkuauðlindirnar en með öðrum hætti varðandi aðrar auðlindir, hvort sem það er vindur, sjór, fiskveiðiauðlindin eða annað.

Þá komum við að því sem á eftir að gera á Íslandi. Nú er komið fram frumvarp, ég held að sé örugglega komið fram, um að það verði skilgreint í lögum hvað séu náttúruauðlindir Íslands. Það er mjög mikilvægt, ekkert endilega út af þessari vinnu en tengist henni þó, ekki síst út af því ferli sem við erum í sem Evrópusambandið kom með og lét okkur hafa og þá skiptir máli að við séum búin að skilgreina hvað eru auðlindir okkar samkvæmt lögum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, frú forseti, en hlakka til að takast á við þetta mál í iðnaðarnefnd.