139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:59]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér er óumdeilanlega mjög mikilvægt vegna þess að það varðar gríðarlega hagsmuni, þ.e. með hvaða hætti við viljum koma fyrir í íslenskri löggjöf nýtingarrétti á auðlindum þjóðarinnar, vatnsréttindum annars vegar og hins vegar jarðhitaréttindum. Þetta eru álitamál sem hafa farið hátt í umræðunni á síðustu missirum og reyndar mörg síðustu ár. Oft og tíðum má segja að umræðan um þessi auðlindamál hafi byggst meira á tilfinningum, sem ég gef svo sem ekki lítið fyrir, en endilega á yfirveguðum og málefnalegum grundvelli. Ástæðan fyrir því er sú að hér á Íslandi hafa verið gerðir samningar og farið út í fjárfestingar sem hafa verið umdeildar og almenningur og stjórnmálamenn hafa haft miklar skoðanir á.

Í tengslum við þetta hafa sprottið upp miklar umræður um það hvort auðlindir Íslands eigi að vera í almannaeigu eða hvort kveða eigi á um það í stjórnarskrá að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar. Ég minnist þess að þegar til umfjöllunar var frumvarp til vatnalaga sem þáverandi hæstv. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lagði fram, mælti fyrir og flutti stóðu menn hér og gagnrýndu það að sú ríkisstjórn væri að einkavæða vatnið, það væri verið að einkavæða auðlindirnar í landinu, auðlindir sem ættu heima hjá ríkinu, hjá fólkinu í landinu. Þetta frumvarp er viðbragð við umræðu sem hefur átt sér stað og á rót í sama grunni.

Það er hins vegar mikilvægt að menn átti sig á því að vatnsréttindi og jarðhitaréttindi sem þetta frumvarp fjallar um eru að langmestu leyti í dag í eigu ríkisins, í eigu sveitarfélaga og í eigu félaga sem ríki og sveitarfélög eiga. Á síðustu árum hefur verið gengið lengra og lengra í að tryggja eignarrétt ríkisins á vatnsréttindum og jarðhitaréttindum. Þar nægir bara að vísa til þjóðlendumálanna þar sem ríkið hefur átt í málaferlum við landeigendur og slegið eign sinni á lönd sem landeigendur hafa ekki getað sýnt fram á eignarrétt sinn. Ríkið er eigandi allra þjóðlendnanna þar sem langstærstan hluta vatnsréttinda er að finna. Það er mikilvægt að menn hafi þetta í huga í tengslum við þá umræðu sem ég nefndi áðan, þá tilfinningaþrungnu umræðu um mikilvægi þess að auðlindir lands og þjóðar séu í eigu þjóðarinnar. Staðreyndin er nefnilega sú að þannig er það í dag. Þannig er það samkvæmt þeim lögum sem sett voru árið 1998 að ríki og sveitarfélögum er óheimilt að selja frá sér þessi réttindi. Þetta er sú réttarstaða sem uppi er í dag varðandi vatnsréttindi og jarðhitaréttindi.

Með þessu frumvarpi er hins vegar verið að setja ramma utan um það með hvaða hætti ríkinu og sveitarfélögum er heimilt að leigja þessi eignarréttindi sín til annarra aðila. Við þurfum að reyna að tileinka okkur það í tengslum við umræðu um þetta mál, vegna þeirra ofboðslegu hagsmuna sem í húfi eru, að reyna að gera það málefnalega og af yfirvegun og reyna að ýta til hliðar tilfinningunum í málinu. Við þurfum að komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu um það með hvaða hætti við viljum sjá þessum málum komið fyrir í lögum. Þá er afar mikilvægt að sjónarmið allra þeirra sem að þessum málum koma fái að koma fram, bæði hagsmunaaðila í iðnaði eða orkuiðnaði, landeigenda, þeirra sem berjast fyrir vernd náttúrunnar og allra þeirra sem hafa skoðanir á þessum málum.

Því miður er það þannig með þetta frumvarp að þó að hæstv. ráðherra hafi upplýst um það hér að við vinnslu frumvarpsins hafi verið haft samráð við hina og þessa aðila og skrifaðar skýrslur sem þetta frumvarp byggir á fylgja þær skýrslur ekki því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar og við þekkjum ekki sjónarmið þeirra sem komið hafa að vinnslu þessa máls á fyrri stigum. Það er mikilvægt eins og ég sagði áðan að þessum sjónarmiðum verði öllum leyft að koma fram við vinnslu málsins í hv. iðnaðarnefnd og að þær skýrslur sem hæstv. ráðherra vísaði hér til verði lagðar fram. Fyrr en það hefur verið gert er ekki hægt að taka afstöðu til þeirrar leiðar sem hér er lögð til grundvallar og lagt til að felld verði inn í íslenskan rétt um auðlindanýtingu.

Samkvæmt þeim lögum sem samþykkt voru hér hygg ég að frá árinu 1998 hafi nýtingarréttur varðandi vatnsréttindi og jarðhitaréttindi verið bundinn við 65 ár í senn. Í núgildandi lögum hafa afnotahafar, nýtingarleyfishafar, rétt til að fá framlengingu á nýtingarrétti sínum í 65 ár til viðbótar. Hér er lagt til að þeirri reglu verði breytt. Við vitum öll út af hverju þetta frumvarp er komið fram. Það er vegna deilna sem fyrst og fremst tengjast Magma-málinu. Þess vegna er verið að leggja til þessar breytingar og það er lagt til að nýtingartíminn verði styttur varðandi vatnsréttindin úr 65 árum í 40, en varðandi jarðhitaréttindin úr 65 árum í 30. Það er töluvert mikil breyting miðað við það fyrirkomulag sem nú er í lögum. Auðvitað hlýtur það að hafa einhver áhrif á viðhorf þeirra sem starfa í orkuiðnaði og hyggja á fjárfestingar á Íslandi á því sviði. Reyndar er komið til móts við sjónarmið þeirra með því að heimila það að afnotahafi eigi forgangsrétt á framlengingu og endursamningu um þennan tímabundna afnotarétt í allt að 20 ár. Þetta er engu að síður umtalsverð breyting á því fyrirkomulagi sem hér hefur verið viðhaft.

Þá verðum við að hafa í huga að orkuiðnaðurinn, hvort sem hann er í vatnsafli eða snýr að jarðhitaréttindunum, er þess eðlis að hann byggir á gríðarlegum fjárfestingum, geysilegum fjárfestingum upp á milljarða og jafnvel tugi milljarða. Til þess að þeir sem vilja ráðast í slíkar fjárfestingar geri það verða þeir að hafa einhverja vissu til framtíðar um að starfsemi þeirra geti staðið í einhvern tiltekinn tíma þannig að hún skili sér í framlegð eða ábata fyrir þann sem ræðst í fjárfestinguna. Þetta hafa verið rökin fyrir því að leigutíminn eða afnotatíminn að auðlindinni sé tiltölulega langur.

Þess er getið hér í greinargerð með frumvarpinu að það er viðurkennt að styttri leigutími á þessu sviði auki líkur á svokölluðum leigjendavanda eins og það er kallað. Leigjendavandinn lýsir sér í því að eftir því sem leigutíminn er styttri, þeim mun meiri líkur eru á að fjárfestingum verði verr við haldið og ágengni í nýtinguna aukist, að menn reyni að kreista eins mikið og þeir geta út úr þeirri auðlind sem þeir hafa leigt á sem skemmstum tíma. Þetta er vandinn við það að stytta nýtingartímann vegna þess að það verður auðvitað að horfa til þess mikla fjárfestingarkostnaðar sem afnotahafinn leggur augljóslega út í þegar hann hefur virkjun, hvort sem það er í vatnsafls- eða jarðhitaréttindum. Ef afnotahafinn hefur lengri tíma má búast við því að hann gangi betur um auðlindina og nýti hana af meiri skynsemi og yfirvegun en ef tíminn væri styttri.

Yfir þessi sjónarmið öll þarf að fara í umfjöllun um þetta mál. Það er mikilvægt að iðnaðarnefnd og þingheimur fái sjónarmið þeirra sem hagsmuni hafa í þessu máli hvað þennan þátt málsins varðar. Ég velti því líka fyrir mér og kom að því í andsvari mínu við hæstv. ráðherra áðan að það þurfi að taka það til skoðunar hvort forgangsréttur á framlengingu og endursamningu á afnotarétti sem fyrir hendi er eigi að vera endurtekinn eða hvort það eigi að miða við það að þeir sem fara með afnotaréttinn, nýtingarréttinn, eigi aukinn rétt umfram aðra til að fá framlengingu einu sinni. Það kann að vera að við einhverjar aðstæður sé skynsamlegt að tryggja með löggjöf að þeir sem hafa ráðist í svona gríðarlegar fjárfestingar hafi einhvern forgang á aðra um að halda rétti sínum gangandi áfram, þ.e. ef sá sem leigir þeim réttindin er sáttur við framgöngu þeirra, það hvernig afnotahafinn gengur um auðlindina. Ég tel a.m.k. óskynsamlegt að loka fyrir slíkt.

Margar spurningar vakna í tengslum við þetta mál. Eins og ég sagði strax í upphafi þessarar ræðu erum við hér að fjalla um gríðarlega hagsmuni sem varða mjög marga og stóra hópa í samfélaginu, varða þjóðina alla, sérstaka hagsmunaaðila, bæði þá sem vilja berjast fyrir umhverfisvernd og þá sem vilja nýta auðlindirnar. Það er mikilvægt áður en þetta frumvarp verður afgreitt úr sölum Alþingis að raddir allra þessara hópa fái að heyrast.

Ég heyrði hæstv. ráðherra fara yfir það þegar hún mælti fyrir frumvarpinu að fyrir lægju skýrslur og gögn sem frumvarpið byggðist á. Þær fylgja ekki frumvarpinu og ekki er til allra þeirra vísað. Hæstv. ráðherra nefndi að við samningu þessa frumvarps hefði verið litið til réttarreglna sem gilda á þessu sviði í öðrum löndum, en þeirra er ekki getið í greinargerð með frumvarpinu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt þegar hv. iðnaðarnefnd tekur þetta mál til umfjöllunar að menn geri samanburðarkönnun á því hvernig þessum málum er háttað í löggjöf annarra landa.

Þó að miklar tilfinningar bærist í brjóstum fólks varðandi nýtingu auðlindanna verðum við að passa upp á að það fyrirkomulag sem gildir hér á landi varðandi nýtingu auðlinda leiði ekki til þess að fjárfestar hafi ekki hvata til að fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði. Það er það sem við þurfum, erlenda fjárfestingu til að auka hér hagvöxt og búa til verðmæti úr þeim auðlindum sem landið býður upp á.

Ég vildi bara koma þessum sjónarmiðum að við 1. umr., frú forseti. Ég held að mikið verk sé fram undan (Forseti hringir.) hjá nefndinni við að fara yfir þetta mál. Og margt er enn ósagt um það.