139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[15:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga sem fjallar um að breyta hámarksleigutíma á vatnsaflsvirkjunum og á jarðhita. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir tilurð þessa máls, hvernig það kom inn, og vísaði til þess að það hefði verið unnið í samstarfi og sátt við hagsmunaaðila. Hæstv. ráðherra nefndi líka að þetta væri gert til að ná ákveðinni sátt á milli mismunandi sjónarmiða í þjóðfélaginu og til að skapa frið. Ég ætla ekki að leggja neitt sérstakt mat á það hvort skynsamlegt sé að lækka hámarksleigutímann úr 65 árum í 40 í vatnsaflsvirkjunum og úr 65 árum í 30 í jarðhitanum. Innlegg hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan var nokkuð gott, einungis er átt við það sem leyfilegt er að hámarki, viðkomandi stjórnvöldum er í sjálfsvald sett hvort þau leigja til 65 ára frekar en til 25 ára eða 30 ára eða einhvern annan tíma. Langflestar þessara auðlinda eru í eigu opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, og því hlýtur maður að treysta því að þeir aðilar geri það sem þeir telja réttast hverju sinni og hafi í huga hvernig megi hámarka arðinn af viðkomandi auðlind.

Ég vil líka fagna því að talað er um að setja nýja málsgrein inn í frumvarpið þar sem kveðið yrði á um hvernig eigi að ganga um auðlindina, þ.e. að ganga eigi um hana með ábyrgum hætti, það er gott að hnykkt skuli á því. Hæstv. ráðherra mun þá gefa út reglugerð um það, sem er til góðs, þannig að hægt sé að ætlast til þess að þeir sem nýta auðlindina skili henni til þjóðarinnar eins og tekið var við henni. Ég treysti því að hv. iðnaðarnefnd fari mjög vel yfir þetta og kalli eftir því sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór yfir hér áðan, þeim skýrslum og þeim álitum sem vitnað er til við gerð frumvarpsins. Ég hef fulla trú á að farið verði yfir það.

Eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á gefst ekki mikill tími til að hafa skoðanaskipti í einnar mínútu andsvari. En sjónarmið hæstv. ráðherra í sambandi við nýtingu á öðrum auðlindum landsins olli mér miklum vonbrigðum, ég viðurkenni það góðfúslega. Ég hef haft þá trú að hæstv. iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, sé sú manneskja í sínum þingflokki sem hafi víðtækari reynslu og skilning en margir aðrir sem þar sitja, hún hefur verið mjög hlynnt því að styðja við atvinnulífið, hefur sýnt það í störfum sínum. Ég hrökk því dálítið við við þessa yfirlýsingu hennar. Mér fannst hún fara með mikla öfugmælavísu í seinna andsvari sínu til mín þegar hún sagði réttilega að í nýtingu á vatnsafli væri hægt að reikna upp á kílóvatt hvað hægt er að nýta — ég er algjörlega sammála hæstv. ráðherra um það og ég held að engar deilur séu um það — og að það séu rök fyrir því að hafa lengri nýtingartíma á því en til að mynda hvað varðar sjávarútvegsauðlindina. Það eru miklu fleiri óvissuþættir, eins og hæstv. ráðherra benti á, sem snúa að þeim sem nýta sjávarútvegsauðlindina. Það er eins og hæstv. ráðherra sagði: Það er stærð fiskstofna, hvort menn fái á sig skerðingar og þar fram eftir götunum. Óvissan í kringum fjárfestingu í sjávarútvegi er því miklu meiri en til að mynda í vatnsaflsvirkjun þar sem hægt er að reikna út, nánast upp á kílóvatt, hvað fyrirtækið hefur í nýtingu. Fyrirtækið getur lagt það á borðið til þeirra aðila sem það leitar eftir fjármagni hjá til að fara í fjárfestingar. Mér fundust því þessi rök vera hálfgerð öfugmælavísa hjá hæstv. ráðherra.

Mig langar aðeins að fara yfir endurnýjun fjárfestinga í sjávarútvegi, ég tel mikilvægt að gera það, sérstaklega í ljósi orða hæstv. ráðherra. Nú er það svo að mjög stór hluti af bolfiskafla Íslendinga — og það hefur orðið mjög mikil breyting á því á síðustu árum, á innan við einum áratug, þar sem við erum nú farin að veiða mun meiri afla á línu, þ.e. mikil framþróun hefur orðið í því að menn hafa verið að færa sig úr togveiðum yfir í línuveiðar. Það eru margar ástæður fyrir því, bæði markaðslegar og aðrar.

Til að árétta það kom nýtt línuskip, svo að við tölum ekki um þessar trillur, síðast til landsins fyrir rúmum 20 árum. Það eru rúm 20 ár frá því að nýtt vel útbúið línuskip var flutt til Íslands. Ég var að lesa það í blöðunum fyrir nokkrum vikum að nýtt línuveiðiskip væri að koma til Noregs sem er að sjálfsögðu samkeppnisland okkar á mörkuðum. Þegar menn þróa ný skip er það ekki bara til þess að fjárfesta, menn eru aðallega að bæta skipið og aðallega að bæta meðferð afla en kröfur um gæði á mörkuðum eru mjög háar. Ef hægt er að bæta meðferð aflans, sama á hvaða veiðum það er, fæst margfalt meira fyrir hann. Eftir mikla framþróun í þessari grein eru menn farnir að setja mikinn búnað um borð í skipin til að kæla fisk og þar fram eftir götunum — ég þarf ekki að fara yfir það hér — og það kostar stærri skip. Það er framþróun, skipin eyða minni olíu, eru með nýjan útbúnað og þannig mætti lengi telja.

Fyrir nokkrum vikum las ég frétt um að nýtt línuveiðiskip væri að koma til Noregs, sem var verið að smíða fyrir norskan aðila, og það kostaði rétt tæpa 4 milljarða. Mér stendur því stuggur af því sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að nýtingarréttur þeirra sem eru að vinna í sjávarútvegi ætti að vera styttri en 20 ár. Ég trúi því ekki þar sem hæstv. ráðherra ætti nú að þekkja vel til. Halda menn að einhver geti fengið fyrirgreiðslu fyrir fjárfestingu upp á nokkra milljarða, kannski 4 milljarða, með leigusamning til nokkurra ára? Það segir sig sjálft að það er ekki framkvæmanlegt. Það vita allir. Það er algjör afneitun ef fólk neitar að horfast í augu við það. Það segir sig alveg sjálft að þá munum við, sjávarútvegurinn, dragast aftur úr. Við munum þá verða undir á markaðsforsendum og það mun leiða til þess að tekjur verða minni fyrir þjóðarbúið, þ.e. fyrir ríkissjóð, það er bein afleiðing. Svo ég tali nú ekki um ef menn ættu að fara að fjárfesta í nýjustu frystiskipunum eða frystitogurunum sem kosta tvöfalt meira en þetta og jafnvel meira en það, kannski 6–8 milljarða. Hefur einhver trú á því að menn fari að kaupa hér nýjan togara fyrir 6–8 milljarða með leigusamning upp á nokkur ár? Nei, virðulegi forseti, það mun ekki gerast. Þegar menn hafa farið í þessar miklu fjárfestingar og flutt inn þessi stóru skip hafa þeir farið að nýta vannýttar tegundir og skapa okkur stöðu á þeim mörkuðum. Hægt er að nefna mörg dæmi um það, bæði úthafskarfann og þannig mætti lengi telja. Ef menn hafa ekki þessa fjárfestingargetu inni í greininni og einhverja vissu mun það á endanum skaða þjóðarbúið í heild sinni. Þess vegna er ég mjög hryggur og dapur yfir því að þetta sé skoðun hæstv. iðnaðarráðherra, sem ég taldi nú hafa einn mesta skilninginn í stjórnarliðinu á því hversu mikilvægt er að hægt sé að byggja hér upp eðlilega fjárfestingu.

Hæstv. ráðherra sagði líka í þessu stutta andsvari, seinna andsvari, að ríkissjóður ætti að fá eðlilegt gjald af auðlindinni. Þar er ég algjörlega sammála hæstv. ráðherra. Það er mjög skynsamlegt og eðlilegt að ríkissjóður, sem er eigandi auðlindarinnar, fái tekjur af þeim auðlindum sem hann leigir með þessum leigusamningum eins og er í dag. Þá vil ég rifja það upp að þeir sem nýta auðlindir sjávar greiða langhæsta auðlindagjaldið í dag ef miðað er við aðrar auðlindir. Það er hlutur sem við þyrftum að taka til umræðu og gagngerrar endurskoðunar hér á Alþingi, hvernig mætti breyta því þannig að sanngjarnt afgjald væri af arðinum af nýtingu auðlindanna, alveg sama hvað auðlindin heitir; það skiptir engu máli hvað auðlindin heitir. Það er verkefni sem við ættum að taka fyrir hér í þinginu.

Ég vil að það komi fram hér að heildartekjur fiskveiðiflotans eru í kringum 100 milljarðar. Það er verið að greiða af því um 3 milljarða í auðlindagjald. Sumum gæti þótt það of lítið, öðrum of mikið. Ég minni á að þetta er brúttóvelta. Af því fara um 40% í laun og launatengd gjöld og þannig geta menn lengi talið. Menn eru því að tala um að það sem stendur eftir, til að standa undir fjárfestingu og öðrum kostnaði við reksturinn, sé það sem eftir er til að borga af lánum, borga auðlindagjald o.s.frv. — segjum að það sé bara 25% eða 30%, það er misjafnt eftir greinum og breytilegt á milli ára. Það var nú ekki mikið þegar krónan var sem sterkust í þenslunni hér á suðvesturhorninu. Þá hafa menn sagt: Það er verið að borga í dag tæp 10% af því sem verður eftir hjá útgerðinni í auðlindagjald, þ.e. um 3 milljarða á ári. Það getur vel verið að sumum finnist það of mikið, öðrum of lítið. En ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að draga þetta fram því að mér finnst margir hv. þingmenn tala á þann veg að sjávarútvegurinn skili ekki neinu til landsins, þess vegna verði að skattpína hann og skattleggja hann frekar — sjávarútveginn sem borgar líka aukalega hærra tryggingagjald. Mér finnst þessi umræða oft vera á villigötum.

Það er mjög mikilvægt að menn taki þessa umræðu um auðlindagjöldin í heild sinni upp á hærra plan. Mér hefur fundist margir hv. þingmenn vera að fiska í gruggugu vatni til að ná sér í einhver atkvæði og draga upp ranga mynd af því sem fyrir er. Það á að sjálfsögðu að fara þá leið að hafa sambærilega nýtingarsamninga í sjávarútvegi og í orkuauðlindunum, eða mjög sambærilega. Það er fáránlegt að halda að fyrirtæki geti byggt upp eitthvert atvinnulíf, einhverja fjárfestingu, og unnið markaði ef leigutími er stuttur. Það mun að sjálfsögðu ekki leiða nema til eins, þjóðarbúið og ríkissjóður mun á endanum tapa. Það liggur fyrir, það er misskilningur að halda öðru fram.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hv. iðnaðarnefnd fari mjög vel yfir þetta mál, ég veit hún gerir það, og skoði þá hluti sem standa út af. Ég vænti þess að hún fari sérstaklega yfir þessa breytingu, hvað hún þýði, og kalli til sín þá aðila sem hafa eitthvað um þetta að segja. Ég vona að menn skili þessu þá hingað inn til þingsins, eftir frekari vinnslu frumvarpsins, og að við getum tekið þetta til frekari umræðu síðar.