139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[15:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að ég yrði víttur fyrir þau orð sem ég viðhafði við hv. fyrrverandi ráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, þegar þetta mál kom upp á þeim tíma, ef ég hefði flutt þau í þessum ræðustól. Ég get fullvissað hæstv. ráðherra um að ég barðist mjög hart og eindregið gegn (KLM: Hvað sagðirðu við hana?) þeirri ákvörðun ráðherrans sem á þeim tíma var. (Gripið fram í.) Ég vil ekki hafa það eftir því að ég vil ekki fá vítur. Ég ætla að reyna að komast í gegnum þingstörfin án þess.

Ég fer ekki ofan af því, frú forseti, og ég held því enn og aftur fram, og það er af fenginni reynslu sem sveitarstjórnarmaður og sem áhugamaður um byggðamál, að iðnaðarráðuneytið hefur, örugglega síðan 2003 eða fyrir 2003, haft mikinn áhuga á því að kroppa innan úr þessari stofnun — það var það sem ég sagði, ég talaði aldrei um að taka lungann úr einhverju — og gera hana að verkfæri sem væri lítið annað en framlenging á embættismannakerfinu í ráðuneytinu. Hvernig er t.d. byggðaáætlun unnin í dag? Er hún ekki unnin í ráðuneytinu nánast án samráðs við stofnunina eins og við höfum séð í þeirri áætlun sem við höfum verið með í höndunum núna?

Ég spyr hæstv. ráðherra fyrst þetta er liður í því að efla stofnunina: Er ekki rétt að það sé nefnd að störfum sem vinnur að endurskoðun og tillögum um framtíðarstarfsemi stofnunarinnar? Af hverju er ekki beðið eftir niðurstöðu þeirrar vinnu í staðinn fyrir að fara fram með þetta? Það er vegna þess að áhuginn í iðnaðarráðuneytinu er svo mikill að komst yfir þau litlu og takmörkuðu völd, ef hægt er að tala um völd, sem eru hjá þessari stofnun í dag til að koma að byggðamálum.

Við höfum séð þetta svo lengi, frú forseti, og í svo mörg ár að ég hélt að loksins væri komið að því að stjórnvöld í landinu mundu leggja fram trúverðuga byggðastefnu. Nei, það er haldið áfram að höggva í sama knérunn.