139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[15:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður treystir mér ekki fyrir þeim verkefnum sem mér eru falin sem iðnaðarráðherra. Það er ekki til neitt, hvað eigum við að segja, sjálfstætt starfandi skrímsli sem heitir iðnaðarráðuneyti, það sem er í gangi núna er að það er höfuð á því ráðuneyti sem er sú sem stendur hér.

Hv. þingmaður ber upp á þá manneskju sem hér stendur að ætla að fylgja eftir stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum innan iðnaðarráðuneytisins. Það er bara ekki svo. (Gripið fram í.) Það er bara ekki svo, virðulegi forseti. Auðvitað skil ég að hv. þingmaður skuli vera orðinn tortrygginn eftir veru samflokksmanna hans í iðnaðarráðuneytinu, að hann sé tortrygginn eftir það ferðalag. Ég ætla þá að vona að mér takist og okkur að koma hv. þingmanni ánægjulega á óvart þegar við komum með tillögur frá þeirri þverpólitísku nefnd sem er að fara yfir það hvernig við getum komið lánastarfsemi Byggðastofnunar fyrir varanlega vegna þess að það hefur verið bagalegt. Það er verkefni þeirrar nefndar sem nú starfar.

Atvinnuþróunarhlutinn er okkur gríðarlega mikilvægur og við höfum verið að taka núna þá sem þar starfa meira með okkur inn í stofnanaklasa iðnaðarráðuneytisins og það er að nýtast mjög vel. Við erum því að afmá þær skörpu línur sem hafa verið á milli stofnana ráðuneytisins þannig að sú þekking og reynsla sem býr í okkar stofnunum nýtist sem best. Byggðastofnun er svo sannarlega mikilvægur hluti af því.

Virðulegi forseti. Ég tel að það frumvarp sem hér er lagt fram skipti máli í að laga ímynd Byggðastofnunar sem er ansi veik. Alþingi á sök í því vegna þess að Alþingi hefur aldrei fylgt eftir með gjörðum því sem Byggðastofnun er sett fyrir (Forseti hringir.) í lögum. Ég held að þessi breyting verði eingöngu til þess að styrkja þá mynd sem af Byggðastofnun er og verður vonandi fyrsti liðurinn í því að byggja upp þá starfsemi (Forseti hringir.) sem Byggðastofnun hefur á hendi.