139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[15:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka nokkrar mínútur í að ræða þetta frumvarp og mál því tengd. Við erum hér að tala um einfalda grein í rauninni, að fækka í stjórn þessarar stofnunar. Ég vil meina að það séu mikil mistök að gera það. Það er mjög mikilvægt að innan Byggðastofnunar starfi mjög hæft starfsfólk, eins og ég held að þar sé í dag, og einnig að í stjórn þessarar stofnunar séu sem fjölbreyttust sjónarmið og sem mest sýn á þau verkefni sem stofnunin á að sinna. Þá komum við kannski að því, frú forseti, sem hæstv. ráðherra sagði réttilega áðan, að Alþingi hefur ekki staðið sig í því að skapa, þá væntanlega með fjármunum og hugsanlega umhverfi, Byggðastofnun þau tæki og tól sem hún þarf til að sinna hlutverki sínu. Byggðastofnun hefur m.a. haft það hlutverk að lána til starfsemi og í fyrirtæki úti á landi sem hinir meintu viðskiptabankar, eða hvað á að kalla þessi fyrirtæki, hafa ekki viljað lána til. Fyrirtæki úti á landi — við þekkjum það öll, og ekki bara fyrirtæki, einstaklingar líka — hafa ekki aðgang að sömu fyrirgreiðslu og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur Byggðastofnun einmitt inn í. Það þarf að efla þessa stofnun, það þarf að sjálfsögðu að skýra verkefni hennar. Ég held að það hafi verið og sé eitt af vandamálum þessarar stofnunar síðustu árin, þar á meðal þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn og fór jafnvel með þetta ráðuneyti, að framtíðarsýnin um það hvernig þessi stofnun ætti að líta út og hver verkefni hennar ættu að vera hefur ekki verið ljós. (Gripið fram í.)

Alþingi hefur skipað ýmsar nefndir, og við hér sum hver tekið þátt í störfum þeirra, nefndir sem hefðu átt að vera leiddar af Byggðastofnun þar sem þekkingin er til staðar, talnagrunnur og slíkt sem hægt er að vinna með, í staðinn fyrir að vera leiddar af ráðuneytum ríkisins.

Í allt of mörg ár hefur nánast eingöngu verið rætt um Byggðastofnun undir þeim formerkjum að þarna sé stofnun sem þurfi að breyta, jafnvel leggja niður, hún sé óþörf, gagnist ekki og eitthvað slíkt. Það getur vel verið að eitthvað af þessu sé rétt, en það er þá vegna þess að við, þingmenn eða framkvæmdarvaldið, búum ekki þessari stofnun það umhverfi sem er bæði mikilvægt og nauðsynlegt.

Það hefur lengi verið rætt um mikilvægi þess að atvinnuþróunarfélögin starfi náið með ríkisvaldinu og þá um leið með Byggðastofnun. Ég held að það sé í rauninni mikilvægt að við færum meira af ákvörðunum og framkvæmd beint til atvinnuþróunarfélaganna úti á landi og þá í samvinnu við Byggðastofnun. Við höfum líka búið til ýmsar nýjar stofnanir undanfarin ár, eins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem er mjög þarft og merkilegt fyrirtæki, er með starfsstöðvar víða um land og lætur mjög gott af sér leiða. En við megum á sama tíma ekki falla í þá gryfju að stilla upp verkefnum jafnvel hverju gegn öðru eins og mér finnst því miður stundum vera gert varðandi t.d. áðurnefndar stofnanir.

Í lögum um Byggðastofnun er vitanlega kveðið á um um hlutverk hennar. Það hafa verið skrifaðar ýmsar skýrslur um hvort stofnunin fari eftir þeim lögum. Eftir því sem ég best veit hefur komið í ljós að þar hefur verið starfað eftir þeim lögum og reglum sem eiga að gilda. Það umhverfi sem stofnunin hefur lánað inn í hefur verið með þeim hætti að þar hafa fjármunir eðlilega — og ég meina eðlilega — tapast.

Í 2. gr. laga 106/1999 segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni.

Í samræmi við hlutverk sitt vinnur stofnunin að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra.

Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, m.a. með gagnasöfnun og rannsóknum. Stofnunin skipuleggur og vinnur að atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Stofnunin getur einnig tekið þátt í gerð svæðisskipulags samkvæmt skipulagslögum.“

Lagagrein þessi, frú forseti, undirstrikar það nána samband sem er á milli þróunarsviðs stofnunarinnar og atvinnulífsins, það samband sem er á milli þeirra sem vinna að rannsóknum og þekkingaröflun, á aðstæðum landsbyggðarinnar. Það er mjög mikilvægt að Alþingi og framkvæmdarvaldið marki þessari stofnun skýrt umhverfi og skýra stefnu í stað þess að vera sífellt að, ég ætla nú bara að orða það eins og hér var orðað ekki alls fyrir löngu, ef ég man rétt, hræra í innyflum stofnunarinnar.

Það er mjög mikilvægt að mínu viti að stjórn stofnunarinnar endurspegli mismunandi áherslur á landsbyggðinni. Það eru ekki sömu áherslur alls staðar úti á landi þar sem stofnunin á að starfa. Við þurfum að horfa til þess og því hvet ég til þess að þetta frumvarp verði nú sett rækilega og djúpt ofan í saltpækilinn í iðnaðarnefnd.