139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[16:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna þar sem hann benti á mjög mikilvægt starf sem Byggðastofnun hefur unnið í gegnum árin og áratugina. Ég tek undir það með hv. þingmanni að manni hefur oft fundist vera frekar neikvæð umræða hjá sumum um Byggðastofnun. Samt sem áður er til þess ætlast að hún styðji og byggi upp atvinnulífið á landsbyggðinni. Byggðastofnun er gríðarlega mikilvæg stofnun. Ekki þarf að setja á langar ræður um það vegna þess að þegar menn hefja atvinnurekstur hafa þeir oft og tíðum komið að lokuðum dyrum í þessu stóra bankakerfi sem var áður en það hrundi allt saman. Síðan þegar þarf að leggja inn í Byggðastofnun út af fjármálahruninu er eins og menn vilji láta að því liggja að þar hafi verið einhver óeðlileg starfsemi á ferðinni en gera sér ekki grein fyrir því að lánastofnun eins og Byggðastofnunin varð að sjálfsögðu fyrir falli eins og allar aðrar lánastofnanir svo ég tali nú ekki um það mikla starf sem unnið er á vegum atvinnuuppbyggingar og þeirrar þróunar sem þar á sér stað. Er hægt að nefna mýmörg dæmi um það.

Þetta frumvarp er hálfgert frumhlaup og ég tek undir að það mætti svo sem fara í þennan saltpækil ef hann væri til staðar í hv. iðnaðarnefnd. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra er búið að skipa þverpólitíska nefnd um að endurskoða starfsemi Byggðastofnunar sem á að skila af sér skýrslu til hæstv. ráðherra fyrir 1. maí. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Hefði ekki verið eðlilegra að þetta frumvarp kæmi fram eftir að þeirri vinnu væri lokið þannig að menn hlypu ekki á sig eins og mér finnst vera að gerast núna?