139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

Byggðastofnun.

721. mál
[16:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að staldra aðeins við það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu vegna þess að þetta er svo sem ekki merkilegt nema að það á að skipa fimm manna stjórn í staðinn fyrir sjö. Eins og ég sagði í mínu fyrra andsvari finnst mér mjög sérkennilegt að þetta skuli vera lagt fram núna þar sem þessi þverpólitíska nefnd á að skila af sér 1. maí og þá verður varla byrjað að fjalla um þetta frumvarp í iðnaðarnefnd af því að þingið er að fara í frí eftir daginn á morgun fram til 2. maí.

Telur hv. þingmaður einhverja hættu á því að þarna sé eitthvert milliþrep í því að ætla að fella Byggðastofnun og það mikilvæga starf sem sú ágæta stofnun vinnur inn í einhverja ákveðna bankastofnun? Það kemur fram í greinargerðinni að það komi vel til greina að láta Bankasýslu ríkisins tilnefna tvo stjórnarmenn. Mér finnst einhvern veginn vegurinn liggja þangað án þess að ég haldi því fram að svo sé. Maður getur líka rifjað það upp með Bankasýslu ríkisins að hér voru umræður síðast í morgun þar sem talað var um hvernig ríkisbankinn Landsbankinn hefur til að mynda staðið sig í að leysa úr ákveðnum skuldavanda fyrirtækja sem hefur lítið miðað og ekkert gerst í.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji einhverja hættu á því að vilji stjórnvalda sé hugsanlega að fella Byggðastofnun undir einhvern bankann sem deild þar og þá sé í raun og veru hætta á því að það mikla starf sem snýr að atvinnuuppbyggingunni og atvinnuþróun gæti jafnvel verið í hættu. En það er gríðarlega mikilvægt að það sé varið og stofnunin tryggð. Ég er sammála hv. þingmanni um að stofnuninni þurfi að tryggja þau úrræði og tæki sem hún þarf til þess að fara eftir (Forseti hringir.) tilmælum og lögum sem til hennar er beint af Alþingi.