139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

orlof.

661. mál
[16:14]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er gerð tillaga að breytingum sem bætir rétt starfsfólks til töku orlofs í kjölfar veikinda.

Lög um orlof kveða á um að atvinnurekandi ákveði í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Verði starfsmaður veikur á orlofstíma þarf hann að tilkynna það atvinnurekanda og getur samkvæmt gildandi lögum farið fram á orlof utan lögbundins orlofstíma, þ.e. frá 2. maí til 15. september, en þó ekki síðar en svo að orlofi hans sé lokið fyrir 31. maí næsta ár á eftir. Geti starfsmaðurinn ekki vegna veikinda sinna farið í orlof fyrir þann tíma á hann rétt á að fá orlofslaun sín greidd.

Lagabreytingin sem hér er lögð til felur í sér að starfsmanni, sem vegna veikinda getur ekki farið í orlof á þeim tíma sem ákveðið hefur verið, verði kleift að fara í orlof eftir að veikindunum lýkur án þess að það sé skilyrði að orlofinu verði lokið fyrir 31. maí næst á eftir. Þó er gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður fari í orlof eins fljótt og unnt er eftir að veikindunum lýkur og jafnframt miðað við að ákvörðun um töku orlofs sé tekin í samráði starfsmanns og atvinnurekanda líkt og verið hefur.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemd við gildandi ákvæði um orlofstöku sem áður var lýst. Telur hún það brjóta í bága við ákvæði 7. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 88/2003, sem varðar skipulag vinnutíma, og hefur í því sambandi bent á niðurstöður tveggja dómsmála Evrópudómstólsins um hliðstæð mál.

Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Vinnumálastofnun og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Hæstv. forseti. Ég tel mikilvægt að þetta frumvarp verði að lögum. Með því er brugðist við ábendingum Eftirlitsstofnunar EFTA sem ég gat um áðan og starfsfólki færð nokkur réttarbót við töku orlofs í kjölfar veikinda sem ég tel að sé réttmæt og af hinu góða.

Með þeim orðum óska ég eftir að málinu verði vísað til umfjöllunar hv. félags- og tryggingamálanefndar Alþingis og til 2. umr.