139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kemur hér inn á hið stóra álitaefni þessa frumvarps. Nú er það þannig að það er alltaf mjög erfitt að tryggja réttindi eins aðila þannig að það sé ekki á kostnað réttinda annarra. Ég held að við séum öll sammála um að þetta er ákaflega mikilvægt mál fyrir einstaklinga sem búa við fötlun af einhverju tagi og þurfa á leiðsögu- og hjálparhundum að halda til að stórauka lífsgæði sín og tækifæri til að taka þátt í því daglega lífi sem okkur sem höfum fulla sjón og þurfum ekki á slíkum leiðsöguhundum að halda finnst sjálfsagt.

Í upphaflega frumvarpinu var það þannig að væri manneskja með hastarlegt ofnæmi og lyf gætu ekki hjálpað viðkomandi yrði slíkt mál viðfangsefni kærunefndar fjöleignarhúsa. Eftir að hafa farið ítarlega yfir málið var það mat okkar að ekki væri hægt að neyða fólk til lyfjatöku. Af hálfu ofnæmislækna kom fram — nú man ég ekki hverjir þeir voru en það stendur í nefndarálitinu — að hastarlegt ofnæmi fyrir hundum er mjög sjaldgæft þannig að tiltölulega litlar líkur eru á að í einu og sama húsinu mætist þeir tveir einstaklingar. Ef svo óheppilega vill til að það gerist og samvistir við hundinn eru þeim með ofnæmið óbærilegar, og hann getur framvísað læknisvottorði þar um, verður það kærunefndar fjöleignarhúsamála að fjalla um það mál.