139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um fjölmiðla.

Nefndin fjallaði um málið að nýju milli 2. og 3. umr. og beindi sjónum sérstaklega að ákvæðum um vernd heimildarmanna, réttinn til andsvara, skipan fjölmiðlanefndar og ritstjórnarlegt sjálfstæði.

Það er álit meiri hlutans að ákvæðið um vernd heimildarmanna í 25. gr. frumvarpsins sé afar mikilvæg réttarbót fyrir starfsmenn fjölmiðla. Þar eru dregnar nokkrar varnarlínur um heimildarmenn blaða- og fréttamanna í því skyni að standa vörð um tjáningarfrelsi fjölmiðla og upplýsingastreymi til almennings um mikilvæg en viðkvæm samfélagsmál sem hætta er á að mundu ella liggja í þagnargildi ef heimildarverndarinnar nyti ekki við.

Ég tel að heimildarmannaverndin sé mikilvæg á öllum tímum í lýðræðissamfélögum eins og okkar en mér liggur við að segja að hún sé lífsnauðsynleg við núverandi aðstæður þegar almenningur á kröfu á að fá sem gleggsta mynd af þeim atburðum sem leiddu til fjármálahrunsins og eftirleiks þess.

Í frumvarpinu er vísað til þess að heimildarverndinni verði einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar eða á grundvelli 119. laga um meðferð sakamála. Í þeirri grein segir efnislega að vitni í sakamáli sé óheimilt að upplýsa um heimildarmann nema í þeim tilvikum þegar dómari telur að vitnisburður geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls og ríkari hagsmunir séu af því að spurningum verði svarað en trúnaði haldið t.d. um nafn heimildarmanns.

Hér vil ég leggja sérstaka áherslu á að meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að tilefni sé til að styrkja enn frekar heimildarverndina í umræddri grein sakamálalaganna. Leiðin sem meiri hlutinn bendir á er að afmarka nánar undanþáguákvæði 3. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála með því að skýra nánar þau tilvik sem geta leitt til þess að dómari beiti undanþáguákvæðinu þannig að ljóst muni vera að því skuli ekki beitt nema í undantekningartilvikum og eingöngu þegar um er að ræða vitnisburð er ráðið getur úrslitum í dómsmálum sem tengjast alvarlegustu glæpum. Þar væri eðlilegt að líta til fordæma frá Mannréttindadómstóli Evrópu sem hefur lagt þunga áherslu á vernd tjáningarfrelsis og heimildarmannavernd og það sé einungis þegar um er að ræða glæpi á borð við morð, manndráp, nauðgun, misnotkun barna eða landráð sem það komi til greina að aflétt verði heimildarvernd með dómi.

Meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á því að í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur komið fram að viðskiptahagsmunir séu ekki nægjanleg rök til að aflétta heimildarvernd og leggur meiri hlutinn til að íslensk löggjöf endurspegli sams konar viðhorf með vísan til almannahagsmuna. Það er rétt að fram komi að menntamálanefnd vinnur nú að minnisblaði með þessum sjónarmiðum um styrkingu á heimildarvernd og mun vísa því til frekari meðferðar hv. allsherjarnefndar. Ég geri mér því vonir um að innan tíðar munum við sjá frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála í þessa veru.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingu á 36. gr. frumvarpsins um réttinn til andsvara í þá veru að birting slíkra andsvara skuli lúta samræmdri reglu óháð því hvert miðlunarform fjölmiðils er, þ.e. hvort um prentmiðil, ljósvakamiðil eða aðra miðla er að ræða, en ekki séu mismunandi kvaðir lagðar á fjölmiðla eftir miðlunarformi þeirra eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu.

Meiri hlutinn leggur jafnframt til breytingu á ákvæði 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um skipan fjölmiðlanefndar. Tillaga meiri hlutans er sú að Blaðamannafélag Íslands tilnefni einn fulltrúa í nefndina en samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefni þá á móti einn fulltrúa í stað tveggja. Með þessu vill meiri hlutinn taka undir þau sjónarmið sem komið hafa fram í máli umsagnaraðila þess efnis að mikilvægt sé að einstaklingar með starfsreynslu úr blaða- og/eða fréttamennsku eigi sinn fulltrúa í nefndinni. Hins vegar er rétt að árétta þau sjónarmið sem einnig komu fram í málsmeðferð nefndarinnar og í nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar þess efnis að nefndarmenn séu ekki í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við aðila sem falla undir gildissvið laganna svo ekki megi draga óhlutdrægni þeirra í efa. Af þessu leiðir að hér er við það miðað að umræddur fulltrúi Blaðamannafélags Íslands sé ekki núverandi starfsmaður fjölmiðils sem nefndinni er gert að hafa eftirlit með.

Virðulegi forseti. Nefndin tók upp milli 2. og 3. umr. 24. gr. frumvarpsins um ritstjórnarlegt sjálfstæði og þá sérstaklega spurninguna um hvort styrkja bæri ákvæðið með því að tengja það viðurlögum. Það mun hafa verið hluti af pólitísku samkomulagi í nefnd fulltrúa allra þingflokka sem skilaði merkri skýrslu árið 2005 um fjölmiðlamál að tengja ákvæðið ekki viðurlögum, en ég fagna því sérstaklega að nú skuli hafa skapast grundvöllur fyrir samstöðu um að styrkja þetta mikilvæga ákvæði enn frekar með því að tengja það viðurlögum í formi dagsekta. Ég vil þakka sérstaklega minni hluta menntamálanefndar fyrir ábendingu í þessa veru í minnihlutaáliti sínu fyrir 2. umr. málsins. Tilefni þessarar breytingartillögu er sá skilningur nefndarmanna að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði séu afar mikilvæg forsenda fyrir auknu trausti almennings í garð fjölmiðla í landinu.

Að lokum leggur meiri hlutinn til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að þar til skipað hefur verið í fjölmiðlanefnd skuli útvarpsréttarnefnd vera við störf og sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum nr. 53/2000.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem ég hef reifað og er gerð tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir álit meiri hlutans rita Þráinn Bertelsson, Oddný G. Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara, Björn Valur Gíslason og sá sem hér stendur.