139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

grunngerð landupplýsinga.

121. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Nú er verið að mæla fyrir áliti hinnar háu umhverfisnefndar um frumvarp sem fjallar um landupplýsingar og er m.a. borið fram til að innleiða, eins og það heitir, merka Evróputilskipun sem upp á ensku er kölluð INSPIRE-tilskipunin og er um notkun á miðlun landupplýsinga. Hér er ekki bara verið að uppfylla einhverjar Evrópukröfur heldur líka samræma framboð íslenskra stofnana á stafrænum landupplýsingum eins og við höfum kosið að kalla það, m.a. með því að opnuð verður sérstök gátt sem Landmælingar Íslands sjá um. Þar verður á einum stað hægt að nálgast allar þær landupplýsingar sem á þarf að halda til ýmissa verka og safnað er eða stofnað til á opinberum vegum.

Nefndin er einhuga í þessum efnum, einhuga um þetta mál og mælir með að það verði samþykkt. Hún flytur nokkrar breytingartillögur sem m.a. varða orða- og hugtakanotkun tölvusviðs og upplýsingamála þannig að auðvitað verður fyrir töluvert af hugtökum og orðum sem eru venjulegu fólki framandi. Eins og ég sagði áðan má nefna að við teljum réttara að tala um stafrænar landupplýsingar en landupplýsingar, m.a. í nafni hinna væntanlegu laga, vegna þess að landupplýsingar eru skilgreindar sem upplýsingar um staði á jörðu, á hafi og í lofti, en þær upplýsingar geta verið með margvíslegum hætti og þetta frumvarp tekur aðeins til þeirra stafrænu.

Við leggjum líka til að orðalag verði lagað með þeim hætti í nafni frumvarpsins og á öðrum stöðum í því þar sem fjallað er um grunngerð, sem er þýðing á innviðum eða strúktúr, við ræðum um grunngerð fyrir landupplýsingar en ekki grunngerð landupplýsinga þar sem ekki er um að ræða strúktúr landupplýsinganna sjálfra eða innviði þeirra heldur þann farveg sem þær geta fallið í.

Í framhaldi af þessum íslenskulegu hugleiðingum leggur nefndin til að áréttað verði í frumvarpinu og hinum væntanlegu lögum að textagögn skuli vera á íslensku eins og hægt er og að það sé óhjákvæmilegt um lýsigögn sem eru þau gögn sem eiga að greiða notendum leið að upplýsingum.

Efnislega verður að nefna að við fjölluðum í nefndinni nokkuð um ákvæði 10. gr. frumvarpsins um samræmingarnefnd. Í stuttu máli er það niðurstaða umhverfisnefndar að þessi samræmingarnefnd starfi til bráðabirgða og undirbúi fyrstu aðgerðaáætlunina í þessum efnum en leggist síðan af sem formlegt fyrirbrigði þó að við leggjum áherslu á að samstarfið haldi áfram undir forustu Landmælinganna og þá einkum á milli stofnana en síður ráðuneyta sem tilnefna menn, einkum í fyrstu nefndina.

Við ræddum töluvert um kostnað. Margir hafa af honum áhyggjur sem nefndin tekur í sjálfu sér undir en bendir þó á að frumvarpið er vel undirbúið, að ég segi ekki óvenjuvel undirbúið, og í samráði flestra þeirra sem við sögu koma í framtíðinni í þessum efnum. Ætlunin er að byggja þetta upp hægt og hægt auk þess sem ekki er gert ráð fyrir í frumvarpinu að nýrra upplýsinga verði aflað heldur verði þær upplýsingar sem fyrir eru samræmdar og framboð á þeim þannig að hér er með góðu skipulagi hægt að vinna töluvert verk án þess að það kosti mjög mikið.

Ég ætla nú ekki að rekja allt nefndarálitið, það liggur fyrir, en það má nefna af því sem þar stendur, og er þá meðal niðurstaðna nefndarinnar, að við fjölluðum nokkuð um persónuverndarmál í tengslum við frumvarpið. Það er ljóst, eins og ég sagði áðan, að um landupplýsingagáttina væntanlegu verður ekki veittur aðgangur að öðrum gögnum en þeim sem þegar eru opinber hjá einstökum stofnunum eða verða það. Það er þó þannig að persónuhelgi getur stafað ákveðin hætta af því að aðgangur verði greiðari en áður að opinberum gögnum og að hægt sé að samtengja þau með ýmsum hætti. Það er ekki víst að öll þau gögn sem fyrir liggja hjá stofnununum standist kröfur sem nú gilda að þessu leyti. Nefndin hvetur þess vegna til þess að forráðamenn stofnana og fulltrúar í samræmingarnefndinni hyggi vel að innihaldi og umbúnaði gagna sem aðgangur veitist nú að um gáttina, ekki síst gagna á heilbrigðissviði sem sérstaklega var hugað að í þessu efni.

Við leggjum til breytingar á frumvarpinu sem kunna að virðast miklar við fyrstu sýn en eru þó, fyrir utan þær sem hér hefur verið gerð grein fyrir, einkum lagatæknilegar, málfarslegar og til skýringar, margar ábendingar ýmissa umsagnaraðila sem flestir voru mjög jákvæðir gagnvart frumvarpinu. Má segja að enginn þeirra hafi lagst beinlínis gegn meginefni þess.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem áður var talað um.

Undir nefndarálitið skrifa auk þess sem hér stendur hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir og Skúli Helgason, og með fyrirvara þau Birgir Ármannsson, Vigdís Hauksdóttir og Kristján Þór Júlíusson.