139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

efni og efnablöndur og eiturefni og hættuleg efni.

333. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Umhverfisnefnd hefur fjallað um þetta mál, lesið um það umsagnir og fengið gesti á sinn fund um það. Meginefni þess er í tvennu lagi, annars vegar er verið að laga núgildandi flokkunar- og merkingarkerfi okkar og Evrópusambandsins að heimskerfinu, svonefndu GHS-kerfi Sameinuðu þjóðanna, og hins vegar eru stigin frekari skref að því að flokkun efna og efnablandna verði færð yfir á framleiðslufyrirtækin. Það er talið mikilvægt að þessar reglur taki gildi á sama tíma hérlendis og annars staðar í Evrópu til þess að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

Við gerum ekki miklar athugasemdir við þetta frumvarp og líkar það vel. Við ræddum líka um kostnað af frumvarpinu, kannski vegna þess að það kom fram í umsögn Umhverfisstofnunar að þangað þætti ekki nægilegt fé vera væntanlegt til að standa að kynningu og framkvæmd eins og tilhlýðilegt væri. Á þeim tíma sem við höfðum málið til umfjöllunar brást umhverfisráðuneytið við þessu með því að heita frekari ráðstöfunum til að tryggja að þetta gæti orðið. Nefndin telur að þannig sé frá gengið að þetta eigi að vera í lagi og treystir því að svo verði.

Þetta kemur íslenskri menningu og tungu við að því leyti að kveðið er á um að texti merkinga skuli vera á íslensku. Í 2. gr. frumvarpsins stendur hins vegar „nema kveðið sé á um annað í reglugerð“. Eftir þessu var spurt þegar gestir komu frá umhverfisráðuneytinu á fund nefndarinnar og þær skýringar gefnar að hér væri um fullkomin undantekningartilvik að ræða og þá einkum þegar texti á merkingum væri eingöngu ætlaður sérfræðingum. Nefndin gerir sig ánægða með þá skýringu.

Við leggjum til smávægilegar breytingar á frumvarpinu, einkum lagatæknilegs eðlis, og bættum það örlítið að málfari.

Við leggjum að öðru leyti til að frumvarpið verði samþykkt. Undir það rita auk mín hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Skúli Helgason og Birgitta Jónsdóttir; þau Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir með fyrirvara. Fjarverandi við afgreiðslu málsins og vissu þó vel um hana og fylgdust með voru hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir og Kristján Þór Júlíusson.