139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[19:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013, sem er á þskj. 1239.

Þingsályktunartillaga þessi var fyrst lögð fram á 138. löggjafarþingi. Lauk iðnaðarnefnd þá afgreiðslu málsins en það hlaut ekki lokaafgreiðslu á Alþingi. Er tillagan nú endurflutt óbreytt en nefndin byggir einnig á þeirri vinnu sem fór fram á 138. löggjafarþingi. Ég vil þó segja að það merkilegasta sem kann að hafa gerst í meðförum núverandi iðnaðarnefndar á þessari þingsályktunatillögu eru þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til, sem sagt að forsætisráðherra flytji Alþingi fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar munnlega skýrslu um framgang byggðaáætlunar sem og stöðu byggðamála í landinu. Meiri hlutinn leggur til að það verði gert í upphafi ársins 2012 en þá er hálfnað það tímabil sem byggðaáætlun á að taka til. Meiri hlutinn telur að með þessu sé gefið gott tækifæri til að ræða þróun byggðamála í landinu á Alþingi.

Á fund í þingskapanefnd, sem fjallar um ný fundarsköp fyrir Alþingi, mætti fyrrverandi hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir þegar verið var að tala um meðferð þingsályktunartillagna. Mér finnst athyglisvert að í eina af tillögunum þar hafi verið skrifað að þingsályktunartillögur fengju meira vægi, að þær færu til ákveðins ráðherra, þeim yrðu gerð ákveðin skil og að jafnvel fengi viðkomandi nefnd skýrslu viðkomandi ráðherra til sín og gæfi um hana umsögn til frekari umræðu.

Enn fremur gerir meiri hlutinn tillögu um að bæta kafla við meginmarkmið áætlunarinnar, um jöfnun lífsskilyrða fyrir alla landsmenn án tillits til búsetu þeirra. Meiri hlutinn leggur til að fyrstu aðgerðir sem gripið verði til séu að leitast við að jafna húshitunarkostnað landsmanna og taka upp flutningsjöfnun á vörum fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni. Meiri hlutinn sækir þessa hugmynd sína í byggðaáætlun Norðmanna en þeir hafa fengið heimild frá Eftirlitsstofnun EFTA til að endurgreiða hluta flutningskostnaðar til og frá ýmsum byggðarlögum í Norður- og Vestur-Noregi. Meiri hlutinn hvetur iðnaðarráðherra til að útfæra nánar reglur þessu að lútandi.

Þetta eru þær tvær meginbreytingartillögur sem núverandi nefnd gerir á þessari tillögu. Ég vil geta þess hér, virðulegi forseti, að þó að það séu þrjár eða fjórar vikur síðan málið var tekið út úr iðnaðarnefnd er athyglisvert að á fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði var m.a. talað um þá tvo þætti sem við gerum hér að okkar aðaltillögu, má segja, um jöfnun lífskjara, þ.e. að jafna húshitunarkostnað landsmanna og taka upp flutningsjöfnun á vörum fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. Það má því segja að nefndin hafi verið forsjál að setja þetta inn og ríkisstjórnin snögg að taka tillit til þeirra tillagna sem koma frá hv. iðnaðarnefnd. Þetta tel ég eitt það merkilegasta sem nefndin vann núna við þessa byggðaáætlun.

Virðulegi forseti. Með tillögunni er enn fremur lagt til að unnið verði að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013 þannig að hún verði hluti af heildstæðri sóknaráætlun fyrir alla landshluta. Með aðgerðunum er leitast við að lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Í byggðaáætluninni eru skilgreind sjö lykilsvið og undir hverju þeirra eru tillögur um aðgerðir og eftirfylgni. Einnig fylgir áætluninni greinargerð Byggðastofnunar um ástand og horfur í byggðaþróun. Með aðgerðunum er leitast við að ná samhljómi með annarri áætlanagerð og aðgerðum stjórnvalda. Lykilsviðin átta eru sett fram í tillögunni sjálfri en nánar útfærð í athugasemdum. Þar er jafnframt greint frá meginhugmynd að baki hverri aðgerð, ábyrgðaraðilum, öðrum hugsanlegum þátttakendum og tímasetningu aðgerðanna.

Meginmarkmið tillögunnar er að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum, efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.

Virðulegi forseti. Þetta eru háleit og góð markmið. Oft hafa verið háleit og góð markmið í byggðaáætlunum en því miður hefur ekki alltaf verið farið eftir þeim. Nefndin bindur nú vonir við að farið verði eftir þessum tillögum. Nefndin mun líka fylgja málinu vel eftir.

Nefndin áréttar að þrátt fyrir að byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 sé ekki samþykkt fyrr en núna er vinna við fjölmarga þætti hennar hafin og nokkrum verkefnum hennar lokið. Nefndinni þótti því rétt að fara stuttlega yfir stöðu einstakra verkefna undir hverju lykilsviði.

Það er getið um það í nefndarálitinu, virðulegi forseti, allir þeir þættir eru þar raktir og vísa ég til þess í upphafi nefndarálitsins.

Framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar er ætlað að vera hluti af Sóknaráætlun 20/20 en 7. janúar sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögur stýrihóps sóknaráætlunar undir heitinu Ísland 2020. Í áætluninni eru 20 mælanleg markmið um samfélagslega þróun og tillögur að aðgerðum til að vinna að þeim. Einn tilgangur sóknaráætlunarinnar er að samþætta opinberar áætlanir sem miða að því að efla atvinnu, menntun og endurskipulagningu opinberrar þjónustu. Með þessu á að stuðla að betri nýtingu fjármuna og öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana, þvert á ráðuneyti. Lögbundnar áætlanir sem skal samþætta eru samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun, áætlanir í ferðamálum, áætlun um orkubúskap þjóðarinnar, hagnýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda landsins o.s.frv. Allar þessar áætlanir hefur Alþingi fengið til meðferðar en þær á sem sagt að samþætta hvað þetta varðar.

Meiri hlutinn áréttar að á Alþingi hvílir lagaskylda um að afgreiða byggðaáætlun, samanber 7. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, en þar er kveðið á um að iðnaðarráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Einnig telur meiri hlutinn mikilvægt að byggðaáætlun fái framgang nú svo hægt verði að halda áfram að hrinda einstökum þáttum hennar og aðgerðum í framkvæmd. Frestun á afgreiðslu byggðaáætlunar mundi skaða framkvæmd einstakra aðgerða hennar, m.a. framkvæmd vaxtarsamninganna sem eru veigamesti málaflokkur byggðaáætlunar. Tveimur þriðju fjárveitinga hennar er einmitt varið til þeirra.

Virðulegi forseti. Ég vísa í kafla um landshlutasamtök sveitarfélaga en sný mér að öðrum þáttum í nefndarálitinu og les úr því þar sem farið er í ýmsa þætti sem unnir hafa verið á undanförnum árum.

Meiri hlutinn fagnar miklum áföngum og sigrum í vegaframkvæmdum undanfarin ár þar sem mikið hefur áunnist og leggur áherslu á áframhaldandi vegaframkvæmdir þar sem vegasamband er ófullkomið og erfitt, t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum og á leiðinni til Norðfjarðar og til Seyðisfjarðar. Rétt er að benda á aðrar mikilvægar framkvæmdir, eins og nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót og að klára Suðurstrandarveg. Meiri hlutinn leggur líka áherslu á mikilvægar framkvæmdir á minna förnum vegum vítt og breitt um landið þar sem meiri hlutinn telur að höfuðáherslu eigi að leggja á lagningu bundins slitlags. Einnig varð nokkur umræða í nefndinni um almenningssamgöngur en þær eru nátengdar þeirri umræðu sem hefur verið um byggðamál og framkvæmdir í vegamálum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um að efling byggðarkjarna og stækkun þjónustu- og atvinnusvæða kalli á að almenningssamgöngur verði endurskipulagðar og stórefldar enda eru þær þáttur í búsetu í byggðum landsins.

Nefndin ræddi einnig hagkvæmni strandflutninga á Íslandi, kosti þeirra og galla. Það er mat meiri hlutans að fara verði gaumgæfilega yfir þessi mál heildstætt og að nauðsynlegt sé að meta alla óvissuþætti í þessu sambandi.

Meiri hlutinn fagnar líka framkvæmdum Fjarskiptasjóðs undanfarin ár þar sem tekist hefur að koma háhraðatengingum til nær allra staða sem nutu þeirra ekki á markaðslegum forsendum. Átak stjórnvalda í þessum efnum með stofnun Fjarskiptasjóðs skipti sköpum og er gott dæmi um mikið og þarft verk sem unnið var í framhaldi af fjárveitingum til þess. Íslendingar eru nú meðal fremstu þjóða hvað þessa þætti varðar. Átakið hefur stórbætt búsetuskilyrði í hinum dreifðu byggðum landsins. Rafræn upplýsingatækni er framtíðin og hana ber að efla sem mest því að hún er án nokkurra hindrana og landamæra. Hún nýtist landsbyggðarfólki einna mest og færir stjórnsýslustofnanir nær neytendum.

Umræða var í nefndinni um alla þá endurskipulagningu sem þarf að gera á ýmsum stoðkerfum þjóðfélagsins eftir efnahagshrunið hið mikla árið 2008, svo sem í bankakerfinu. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að gætt verði að mikilvægu hlutverki banka og opinberrar þjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins við endurskipulagningu og bendir m.a. á að huga að samrekstri slíkrar þjónustu sem lið í að viðhalda starfsemi á landsbyggðinni. Þetta á við um t.d. bankastofnanir, pósthús, heilbrigðisstofnanir, sýslumenn, lögreglumenn, menntastofnanir og ýmsar fleiri stofnanir.

Meiri hlutinn tekur undir þá ábendingu umsagnaraðila að mikilvægi menntunar og fræðastarfs, rannsókna og þróunar á vettvangi þekkingarsetra í landshlutunum sé ótvírætt fyrir eflingu byggða og markvissa stefnumótun í þeirra þágu. Sé litið til langtímaþróunar munu þessar áherslur skila hvað mestum árangri í nýsköpun, eflingu samfélaga og jöfnun búsetu. Á hinn bóginn komu einnig fram athugasemdir um að stjórnsvið byggðaáætlunar hefði þrengst frá því að iðnaðarráðuneytið tók við stjórnsýslu málaflokksins og það hafi m.a. leitt til þess að byggðaáætlunin taki fyrst og fremst mið af málaflokkum ráðuneytisins. Meiri hlutinn bendir á að hafa verður hugfast við gerð áætlana að kröfur samtímans kalla á sífellt nánara samstarf þvert á ráðuneyti og að mikilvæg forsenda skilvirkrar stjórnsýslu sé að áætlanir sem eiga upptök sín í mismunandi ráðuneytum séu samþættar og framkvæmd þeirra samræmd.

Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að mikilvægt sé að stilla saman strengi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þegar mótuð er byggðastefna til framtíðar, ekki síst í ljósi gjörbreyttrar stöðu höfuðborgarsvæðisins í kjölfar efnahagshrunsins. Þar var þenslan mest og samdrátturinn því mest áberandi. Meiri hlutinn telur að forsenda árangursríkrar byggðastefnu sé náið samstarf höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar og telur að sú aðferðafræði sem lögð er til grundvallar í undirbúningi Sóknaráætlunar 20/20 og byggist á víðtæku samráði við heimamenn í héraði um stefnumótun sé til eftirbreytni og líkleg til að skila verkfæri sem nýtt verður á markvissan hátt. Mikilvægustu atvinnugreinar á landsbyggðinni eru sjávarútvegur og landbúnaður sem hafa mátt búa við samdrátt undanfarin ár. Aldrei verður nógu oft ítrekað og áhersla lögð á mikilvægi þessara atvinnugreina og vöxt og viðgang þeirra. Því leggur meiri hlutinn áherslu á að endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins verði hraðað sem mest og þeirri óvissu sem er um framtíðarkerfi sjávarútvegs eytt sem fyrst. Meiri hlutinn minnir á nær samdóma niðurstöðu endurskoðunarnefndar og telur hana góðan leiðarvísi að lausn þessa áratugadeiluefnis meðal landsmanna. Nú er einstakt tækifæri til að ná sátt um framtíðarkerfi fiskveiða sem nauðsynlegt er að nota til að skapa sem mesta sátt til framtíðar. Minnt er jafnframt á mikilvægi AVS-sjóðsins til atvinnusköpunar í sjávarútvegi og aukins virðis sjávarfangs og telur meiri hlutinn að hann eigi að efla til frekari nýsköpunar og aukinna útflutningstekna með frekari fullvinnslu og nýjum atvinnugreinum.

Meiri hlutinn leggur áherslu á aukið mikilvægi landbúnaðar á Íslandi eftir efnahagshrunið haustið 2008 og telur að allra leiða verði að leita til að efla íslenska framleiðslu og spara þar með dýrmætan gjaldeyri. Meiri hlutinn leggur áherslu á að garðyrkjubændum verði áfram tryggt lágt raforkuverð og hvetur til frekari nýsköpunar í matvælaframleiðslu landsmanna um leið og hugað er að rekstrarskilyrðum hefðbundins landbúnaðar. Á sama hátt vekur meiri hlutinn máls á því að víða um land er góð reynsla af samstarfi og samræmingu vaxtarsamninga og menningarsamninga. Slík samlegð, varðandi mannahald, stefnumótun o.fl., er skynsamleg og líkleg til að skila meiri árangri en með aðgreiningu þessara verkefna.

Menning og listir hafa á síðustu árum orðið einn eftirtektarverðasti vaxtarbroddurinn í samfélagi byggðanna hringinn í kringum landið. Aukið vægi þessara greina í félags- og atvinnulífi hefur allt í senn aukið lífsgæði í byggðunum, sjálfsvitund og sjálfstraust íbúa og laðað að æ fleiri ferðamenn sem víða hefur getið af sér fjölbreyttari atvinnutækifæri en áður voru til staðar. Nú eru í gildi menningarsamningar við alla landshluta þar sem mennta- og menningarmálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti leggja fjármuni til verkefna á móti sveitarfélögum og framkvæmdaraðilum. Tilgangur menningarsamninga er að efla menningarstarf á viðkomandi landsvæði og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaganna við slíkt samstarf í einn farveg ásamt því að tryggja sem best frumkvæði og áhrif heimamanna við forgangsröðun verkefna og auka samstarf þeirra við framkvæmd og stefnumótun menningarmála. Samstarf þetta hefur skilað miklum ávinningi víða um land til samræmis við stefnumótun í fyrri byggðaáætlunum. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram komu í umsögnum um að mikilvægt sé að gera menningu og skapandi greinum hærra undir höfði í áætluninni.

Aukning á opinberri starfsemi er einn þeirra þátta sem hefur mikla þýðingu fyrir byggðaþróun. Óhætt er að fullyrða að störf á vegum hins opinbera hafa mikla þýðingu fyrir vinnumarkaðinn á landsbyggðinni, m.a. vegna þess að þau eru ekki eins háð ytri sveiflum og önnur störf. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi árétta mikilvægi þess að þegar ný störf verða til hjá hinu opinbera sé nauðsynlegt að þau verði jafnt til úti á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Þessu tengt bendir meiri hlutinn á að rannsóknir hafa sýnt að launamunur kynjanna er meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, samanber rannsókn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði. Nefndin áréttar að mikilvægt er að leita leiða til að útrýma svæðisbundnum launamun kynjanna.

Meiri hlutinn vekur að lokum athygli á byggðaáætlunum nágrannalandanna og telur að þar megi leita að stefnu og hugmyndum. Sem dæmi hika Norðmenn ekki við að jafna lífskjör þegna sinna með aðgerðum í gegnum skattkerfið. Í Svíþjóð er niðurgreiddur flutningskostnaður. Þar er líka veittur afsláttur af raforkuverði og launatengd gjöld eru lægri á vissum svæðum. Ekki fer á milli mála að sænska byggðastefnan tekur mjög mið af því að landið er aðili að Evrópusambandinu. Við inngöngu Svía í Evrópusambandið var tekið tillit til norðlægrar legu landsins hvað varðar landbúnað og byggðamál. Þar er einnig tekið tillit til hinna sérstöku skilyrða sem einkenna strjálbýl svæði í Norður-Svíþjóð sem og mikilvægis borga fyrir samkeppnishæfni svæða og landsins alls. Sérstök áætlun nær til dreifbýlis þar sem tekið er á efnahagslegri, félagslegri og umhverfislegri þróun. Strjálbýlu svæðin í Norður-Svíþjóð eru sérstök stuðningssvæði í byggðalegu tilliti. Meiri hlutinn leggur til að þeir þættir sem hér hafa verið nefndir úr byggðastefnu nágrannalanda okkar verði teknir til athugunar hjá stjórnvöldum við frekari útfærslu á komandi byggðaáætlunum og sóknaráætlunum landsins. Betur má ef duga skal í byggðamálum okkar Íslendinga.

Virðulegi forseti. Ég vil svo enda mál mitt á því að geta aftur um þær tvær breytingartillögur sem núverandi iðnaðarnefnd hefur gert á þessari þingsályktunartillögu, þ.e. í fyrsta lagi að forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar, flytji Alþingi munnlega skýrslu um framgang byggðaáætlunar, og auðvitað Sóknaráætlunar 20/20, sem og um stöðu byggðamála í landinu. Meiri hlutinn leggur til að það verði gert í upphafi ársins 2012 þegar þetta tímabil er hálfnað. Meiri hlutinn telur að með því sé gefið gott tækifæri til að ræða þróun byggðamála í landinu á Alþingi en á það hefur skort að mínu mati, og okkar, undanfarin ár þar sem byggðaáætlun hefur verið samþykkt og sett til framkvæmda en lítið sem ekkert rætt um framgang hennar á viðkomandi tímabili. Hér verður sem sagt breytt um, viðkomandi forsætisráðherra þarf að flytja þinginu skýrslu frá öllum ráðuneytunum um framganginn og þá er hægt að ræða málið hér.

Þá er ágætt að ljúka máli sínu á því sem ég held að sé eitt af því merkilegasta sem þarna er sett inn, og er ég þá ekki að gera lítið úr meginatriðunum átta í áætluninni, sem eru öll mjög metnaðarfull, en hér kveður við nýjan tón þar sem meiri hlutinn gerir tillögu um að bæta kafla við meginmarkmið áætlunarinnar, um jöfnun lífsskilyrða fyrir alla landsmenn án tillits til búsetu þeirra. Þar leggjum við sem sagt til að fyrstu aðgerðir sem gripið verði til séu að leitast við að jafna húshitunarkostnað landsmanna. Það hefur komið fram á Alþingi og annars staðar að hann er mjög misjafn, allt að 70% munur eftir því hvort verið er að hita húsnæði í dreifbýli eða á höfuðborgarsvæðinu.

Síðast en ekki síst er tillaga að taka upp flutningsjöfnun á vörum fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni. Við erum ákaflega stolt af henni og hún hefur oft verið rædd hér. Meiri hlutinn sækir þessa hugmynd sína í byggðaáætlun Norðmanna — og Svía eins og ég gat um áðan — en þeir hafa sem sagt fengið heimild Eftirlitsstofnunar EFTA til að endurgreiða hluta flutningskostnaðar til og frá ýmsum byggðarlögum í Norður- og Vestur-Noregi. Meiri hlutinn leggur áherslu á það hér vegna þess að þar eru sett inn markmið, talað um hver beri ábyrgð á viðkomandi atriðum og hver skuli vinna þau. Þá leggur meiri hlutinn til að iðnaðarráðherra verði falið að útfæra þessar reglur nánar.

Við tókum málið út úr iðnaðarnefnd fyrir þremur eða fjórum vikum og settum það hér inn. Ég gat um það í upphafi máls míns að ríkisstjórnin tók þessi tvö atriði upp á fundi sínum vestur á Ísafirði og gerði að sínum, húshitun og flutningsjöfnun, og að þau verði sett í forgang. Það kemur sem sagt fram í þessari tillögu eftir umræðu í nefndinni. Þetta er mjög mikilsvert atriði, virðulegi forseti, og ég hygg að það sé auðvelt. Við tölum um að iðnaðarráðherra verði falið að útfæra þetta. Það er nefndarvinna í gangi um garðyrkjubændur og það þarf ekkert nema að útvíkka þá nefnd. Ég hef átt samtal við hæstv. iðnaðarráðherra um að útvíkka hana þannig að hún fjalli um húshitunarkostnaðinn í dreifbýlinu. Svo er hægt að vitna í skýrslu sem tekin var saman af vinnuhópi í upphafi ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þá var skrifuð mikil og góð skýrsla um hvernig eigi að koma flutningsjöfnun á. Ég held að ekki þurfi nema að fara í skúffurnar og dusta rykið af þeirri skýrslu og finna þar góðar tillögur.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk mín sem hér stend Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þráinn Bertelsson, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, Magnús Orri Schram og Gunnar Bragi Sveinsson, með fyrirvara.

Hérna er sem sagt nefndarálitið og þessar breytingartillögur gerðar af átta nefndarmönnum í hv. iðnaðarnefnd.