139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[19:33]
Horfa

Helena Þ. Karlsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þingsályktunartillögu um byggðaáætlun 2010–2013 og þeirri vinnu sem liggur þar til grundvallar, en mikið og gott starf hefur farið fram og margir komið þar að. Ég fagna því enn fremur að byggðaáætlunin skuli vera hluti af heildstæðri sóknaráætlun fyrir alla landshluta og að ýmsar opinberar áætlanir verði samþættar, svo sem með gerð áætlana um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu. Það mun leiða til aukins samstarfs þvert á ráðuneyti, stofnanir og aðra hagsmunaaðila. Með samþættingunni skapast meiri heild, tölfræðigögn verða aðgengilegri, upplýsingaöflun verður markvissari og betri yfirsýn fæst yfir þær aðgerðir sem fara á í. Einnig verður auðveldara að greina styrkleika og veikleika svæða sem og samkeppnishæfni þeirra sem gerir alla framkvæmd og eftirfylgni markvissari.

Öll viljum við búa við góð lífskjör, næga atvinnu, fjölbreytt atvinnulíf, góðar samgöngur, sterka samfélagsgerð, menningu, menntun og góða þjónustu. Margt hefur áunnist en margt er enn ógert. Mér eru sérstaklega hugleikin málefni landsbyggðarinnar en hár flutningskostnaður hefur verið ein af samkeppnishindrunum fyrirtækja á landsbyggðinni. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir landsbyggðina og hafa forsvarsmenn fyrirtækja kallað eftir aðgerðum til að lækka flutningskostnaðinn en gripið í tómt. Mörg fyrirtæki á landsbyggðinni hafa brugðið á það ráð að flytja fyrirtæki sín nær höfuðborgarsvæðinu, þ.e. nær aðalmarkaðssvæðinu, á meðan önnur reyna að halda starfsemi sinni í heimabyggð. En því miður fer flutningskostnaður beint út í verðlag og lendir að lokum á neytendum. Oft var þörf en nú er nauðsyn og með síhækkandi eldsneytisverði verður að bregðast við þessum vanda. Við eigum að horfa til nágranna okkar á Norðurlöndunum. Þeir hafa staðið frammi fyrir sama vanda. Norðmenn hafa t.d. fengið heimild frá Eftirlitsstofnun EFTA til að endurgreiða hluta flutningskostnaðar til og frá ýmsum byggðarlögum í Norður- og Vestur-Noregi. Svíar hafa einnig niðurgreitt flutningskostnaðinn. Það verður að bregðast við þessari þróun og skoða hvaða leiðir eru færar. Nú er tækifæri.

Það er sjálfsögð krafa að lífsskilyrði séu þau sömu um land allt. Við eigum ekki að sætta okkur við að fólk á landsbyggðinni búi við lakari kjör. Fækkun íbúa á landsbyggðinni er töluverð. Mismunandi aðstæður liggja þar að baki en skortur á atvinnutækifærum á þar stóran þátt. Við eigum að leita tækifæra til að stuðla að flutningi til landsbyggðarinnar en ekki frá henni.

Norðmenn hafa brugðið á það ráð að jafna lífskjör þegna sinna með aðgerðum í gegnum skattkerfið og nýta allar þær heimildir sem mögulegar eru til að styðja við þau svæði sem eiga undir högg að sækja. Styrkir eru veittir til lítilla nýstofnaðra fyrirtækja og er horft sérstaklega til fyrirtækja í eigu kvenna. Í nyrstu héruðum Noregs, Finnmörku og Norður-Troms, þar sem fækkun íbúa hefur verið viðvarandi hefur ásamt ívilnunum í gegnum skattkerfið verið veittur afsláttur af endurgreiðslu námslána, undanþága frá greiðslu gjalda af rafmagni, lægri skattar á einstaklinga og hærri barnabætur. Í Svíþjóð hefur verið veittur afsláttur af raforkuverði og launatengd gjöld eru lægri á vissum svæðum.

Fjölbreytt atvinnulíf og atvinnutækifæri eru mikilvægir þættir byggðastefnu en það verður að segjast eins og er að atvinnutækifærin á landsbyggðinni eru oft einhæf og fá. Fjölmargir brottfluttir einstaklingar vilja snúa heim t.d. eftir nám en hafa ekki tækifæri til þess þar sem atvinnutækifærin eru ekki til staðar. Enn fremur vilja fjölmargir flytjast út á land vegna vinnu en vandamál getur skapast ef makinn fær ekki vinnu.

Opinber störf hafa mikla þýðingu fyrir vinnumarkaðinn á landsbyggðinni m.a. vegna þess að þau eru ekki eins háð ytri sveiflum og önnur störf. Það er því mikilvægt þegar ný störf verða til hjá hinu opinbera að þau verði til jafnt úti á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Ráðuneytin og undirstofnanir þeirra mættu einnig skoða í meira mæli hvort þau gætu ekki ráðið til sín sérfræðinga sem staðsettir væru á landsbyggðinni, en með nútímatækni hafa fjarlægðir styst og með skipulagningu starfa má vel koma þessu við.

Hluti af byggðaaðgerðum í Noregi hefur verið flutningur opinberra stofnana frá Ósló og út á land. Þessar áherslur hafa verið mismiklar og breytilegar en reynslan af flutningi stofnana hefur verið góð.

Ef ég tek dæmi frá Háskólanum á Akureyri er það óásættanlegt að horfa á eftir fólki sem útskrifast úr háskólanum burt úr bænum vegna þess að það fær ekki starf við hæfi.

Samgöngur skipta miklu máli fyrir tengingu byggða. Bættar samgöngur og stytting leiða skiptir miklu fyrir byggðaþróun í landinu. Ef ég horfi á mitt svæði verð ég að segja að Héðinsfjarðargöng hafa svo sannarlega sannað gildi sitt. Þau hafa ekki aðeins stækkað atvinnusvæðið heldur hefur ferðaþjónustan notið góðs af. Einnig hafa göngin nýst sem varaleið þegar Öxnadalsheiðin hefur verið ófær.

Miklar væntingar eru gerðar til Vaðlaheiðarganga en það styttist í að byrjað verði á þeim. Þau munu skipta miklu máli fyrir búsetu og atvinnusvæðið austan Eyjafjarðar.

Það er mikil gróska í menningarlífi landsbyggðarinnar. Ég tel að tilkoma menningarsamninganna hafi skipt þar miklu máli. Sama má segja um vaxtarsamningana en mikil ásókn hefur verið í þá. Því er nauðsynlegt að efla þessa samninga.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig til að lýsa yfir ánægju minni með að sérstakt tillit er tekið til ferðaþjónustunnar og aukins vægis hennar í byggðaáætluninni, en oft hafa sjónarmið og hagsmunir hennar átt undir högg að sækja þegar komið hefur verið að ákvarðanatöku um uppbyggingu atvinnulífsins. Í auknum mæli er horft til ferðaþjónustunnar sem vaxtarbrodds atvinnulífsins. Ferðaþjónustan er ört vaxandi og sóknarfærin eru fjölmörg.

Þegar byggðastefna til framtíðar er mótuð þarf að skoða hvert svæði fyrir sig með tilliti til landsins í heild. Landsbyggð og höfuðborgarsvæði verða að ganga í takt. Við höfum orðið óþægilega vör við ríg á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, sérstaklega með tilliti til vegagerðar. Umræðan hefur einkennst af annaðhvort eða en ekki bæði og eins og hún ætti að vera. Við verðum að láta af slíkum hugsunarhætti.

Það eru forréttindi að fá að búa á landsbyggðinni og það er eftirsóknarvert að búa þar. Þess vegna tel ég að leggja eigi áherslu á að lífsskilyrði séu sem jöfnust um allt land og að valfrelsi sé til búsetu.