139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[19:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla aðeins blanda mér í umræðu um nefndarálit hv. iðnaðarnefndar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 og vil ég segja það fyrst að ég tek undir öll helstu efnistök og helstu áherslur sem koma fram í áliti hv. iðnaðarnefndar. Eins og fram kemur í álitinu er markmiðið með þingsályktunartillögunni um stefnumótandi byggðaáætlun að unnið verði að framkvæmd áætlunarinnar þannig að hún verði hluti af heildstæðri sóknaráætlun fyrir alla landshluta. Þar eru skilgreind sjö lykilsvið sem lögð eru til grundvallar og undir hverju þeirra eru tillögur um aðgerðir og eftirfylgni.

Í nefndarálitinu eru síðan rakin ýmis efnisatriði og áhersluatriði sem nefndin leggur sérstaka áherslu á og eins og ég sagði er ég sammála þeim efnistökum í öllum meginatriðum. Sérstaklega tek ég undir þá hluta nefndarálitsins þar sem fjallað er um vegaframkvæmdir, menntun, fræðastarf og rannsóknir og síðan þær hugleiðingar sem koma fram í sambandi við byggðastefnu til framtíðar, opinbera starfsemi og jöfnun lífsskilyrða.

Eins og nefndin bendir réttilega á í áliti sínu er ástæða til þess að fagna áföngum sem náðst hafa í sambandi við vegaframkvæmdir undanfarin ár þar sem mikið hefur áunnist. Ég fagna sérstaklega þeirri áherslu sem nefndin leggur á og hnykkir hér á varðandi áframhaldandi vegaframkvæmdir þar sem vegasamband er ófullkomið og erfitt, eins og t.d. á sunnanverðum Vestfjörðum og á leiðinni til Norðfjarðar og Siglufjarðar eins og hér er tekið sérstaklega fram. (Gripið fram í: Það á að vera Seyðisfjarðar.) Það stendur nú Siglufjarðar, hv. þingmaður, en það er auðvitað rétt, það hlýtur að eiga að vera Seyðisfjarðar. Þetta þarf að leiðrétta, það þarf að prenta nefndarálitið upp. (Gripið fram í: Það er búið að prenta það, þú ert með það gamla.) Já, ég er með það gamla. En á samgöngum veltur að sjálfsögðu samkeppnishæfi landshlutanna, öll aðstaða fólks þar til búsetu og ekki síst allir uppbyggingarmöguleikar atvinnulífsins. Ef maður ætti að nefna einhver þrjú atriði sem væru grundvallandi fyrir slíka uppbyggingu eru það vegaframkvæmdir, vegaframkvæmdir og vegaframkvæmdir. Það er bara þannig.

Þetta er líka grundvöllur þess að það sé yfirleitt hægt að standa við markmiðin um samþættingu áætlana og samstarf og eflingu byggðakjarna og samstarf þeirra á milli, t.d. þegar stefnt er að því að reyna að sameina atvinnusvæði, og auk þess varðar þetta auðvitað alla byggðastefnu til framtíðar.

Ég er því ánægð með þá áherslu sem nefndin leggur á samgöngur í þessu sambandi og tek undir þau sjónarmið með nefndinni að efling byggðarkjarna og stækkun þjónustu- og atvinnusvæða kalli ekki aðeins á bættar samgöngur heldur einnig á uppbyggingu almenningssamgangna og endurskipulagningu þeirra þar sem þess er þörf.

Í byggðaáætlun er líka lögð áhersla á menntun, fræðastarf og rannsóknir, sérstaklega varðandi rannsóknir og þróun á vettvangi þekkingarsetra í landshlutunum sem auðvitað hafa ótvírætt gildi til að efla byggðirnar, gera þær aðlaðandi til búsetu og auka nýsköpunarmöguleika og þróunarstarf t.d. í atvinnulífinu. Í þessu samhengi vil ég minna á tvær þingsályktunartillögur sem ég flutti fyrr í vetur í þinginu sem vörðuðu það að sérgreina og skilgreina landshlutana sérstaklega með tilliti til sérstöðu þeirra og möguleika í menningar-, fræða- og rannsóknarstarfi, sérstaklega með tilliti til möguleika til nýsköpunar og þróunarstarfs. Og til að fjármunir nýtist sem best þegar verið er að veita fé úr opinberum sjóðum til sérstakra átaksverkefna og verkefna sem eiga að efla þróunar- og rannsóknarstarf þá skilgreini menn þau út frá sérstöðu svæða og þeim möguleikum sem fyrir eru og því starfi sem fyrir er, má segja, þannig að byggt sé á þeim sprotum sem þegar eru sprottnir. Þetta vildi ég nefna í þessu samhengi vegna þess að umræðan um þetta hefur ekki verið mjög áköf en ég held að þetta hafi ótvírætt gildi.

Það er full ástæða til að taka líka undir það sjónarmið, eins og nefndin gerir, að stilla þurfi saman strengi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þegar byggðastefna er mótuð til framtíðar. Við lifum í dreifbýlu landi þar sem hefur orðið mikil og ör þéttbýlisþróun á undanförnum áratugum og það hefur haft miklar breytingar á lífskjörum og almennum lífsskilyrðum í för með sér. Að mörgu leyti hefur sú þróun orðið á kostnað landsbyggðarinnar og það þarf að huga að því. Efling byggðar er ekki eitthvert rómantískt gæluverkefni eða rómantísk hugsýn, efling byggðar snýst auðvitað um það að virða rétt fólks til að velja sér búsetu.

Eins og hér er réttilega bent á eru mikilvægustu atvinnugreinarnar á landsbyggðinni frumatvinnugreinar eins og sjávarútvegurinn og svo auðvitað landbúnaðurinn. Nefndin leggur áherslu á það að endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins verði hraðað sem mest til að eyða óvissu um framtíðarkerfi sjávarútvegsins. Undir það má taka að það má ekki dragast neitt úr hömlu að ganga til þeirra breytinga en meiru varðar þó að mínu viti að vanda til verksins, það er ekki nóg að hraða því. Í því skyni tel ég líka ótvírætt að menn megi ekki missa sjónar af markmiðunum með þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru, þ.e. að litið sé á fiskimiðin sem þjóðarauðlind í eigu þjóðarinnar, að þjóðin njóti sjálf arðs af auðlind sinni, að um atvinnugreinina verði skapaðar sanngjarnar leikreglur þar sem atvinnufrelsi, jafnræði og nýliðunarmöguleikar séu hafðir í öndvegi og greininni þar með sköpuð traust rekstrarskilyrði til lengri tíma um leið og gætt verði að þjóðhagkvæmni greinarinnar. Þetta er auðvitað undirstöðuatvinnugrein og það skiptir máli að vel sé að henni búið og hún byggi á eðlilegum og þjóðhagkvæmum og samfélagslegum leikreglum.

Mig langar líka aðeins að ræða hér um opinbera starfsemi og þá áherslu sem lögð er bæði í byggðaáætluninni og í nefndarálitinu á aukna opinbera starfsemi. Þetta er auðvitað eitt af því sem hefur mikla þýðingu fyrir byggðirnar og eins og hér er réttilega bent á eru störf á vegum hins opinbera nokkuð sem skiptir verulegu máli fyrir vinnumarkaðinn á landsbyggðinni. Í þessu samhengi vil ég minna á það sem er reyndar ekki minnst á í nefndarálitinu en menn kannast auðvitað við og það er stefnan ágæta um störf án staðsetningar. Það getur verið sársaukafullt og erfitt að flytja stofnanir sem eru orðnar til á einum stað en það er lítið mál þegar verið er að innleiða ný störf og taka upp nýja þjónustu og nýja opinbera starfsemi að koma henni fyrir utan borgarmarka. Það getur skipt verulegu máli. Það er nokkuð sem ég tel fullt tilefni til að minna á.

Það er líka gaman að sjá hér samanburð við nágrannalöndin, bæði Noreg og Svíþjóð, sem ekki hika við að jafna lífskjör þegna sinna með aðgerðum í gegnum skattkerfið og eins með niðurgreiðslum á flutningskostnaði og öðrum aðgerðum til að jafna lífskjör, afslætti á raforkuverði og þess háttar. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að full ástæða er til að taka sér þetta til fyrirmyndar og hafa til hliðsjónar við framkvæmd og mótun byggðastefnu hér á landi því að við getum lært mikið af nágrönnum okkar í því samhengi. Við eigum að vera óhrædd við að horfa til nágrannaþjóða þegar svo ber undir. Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið sjálf.

Sérstaklega vil ég þó lýsa ánægju með þá breytingartillögu sem lögð er til í nefndarálitinu og lýtur að því sem kannski er mest um vert, að jafna lífskjör Íslendinga án tillits til þess hvar þeir búa og þar sem lagt er til að bæta kafla við meginmarkmið áætlunarinnar um jöfnun lífsskilyrða fyrir alla landsmenn. Og þar er talað sérstaklega um sem fyrstu aðgerðir að leitast verði við að jafna húshitunarkostnað og taka upp flutningsjöfnuð á vörum fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni. Þessu fagna ég sérstaklega og árétta það eins og ég sagði áðan að efling byggðar er ekki rómantísk hyggja heldur spurning um virðingu fyrir búsetuvali fólks og skilningur á því að við erum ein þjóð í einu landi.