139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að fullvissa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar um að það er staðinn dyggur vörður um hagsmuni Íslands á erlendri grundu, á alþjóðlegum vettvangi, í þeim stofnunum þar sem við eigum sæti og eigum samskipti við önnur ríki í samningaviðræðum, í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Um leið og það gleður mig svolítið að hv. þm. Birgir Ármannsson sé farinn að glöggva sig á fréttatilkynningum frá Evrópuþinginu, sem er hið besta mál, hvet ég hann og fleiri hv. þingmenn til að kynna sér aðildarviðræðurnar. Aldrei nokkurn tímann fyrr hefur verið séð til þess í aðildarviðræðum ríkis við Evrópusambandið að allar upplýsingar liggi fyrir, fundargerðir samningahópa, frásagnir, ítarefni og allt annað sem liggur á vef utanríkisráðuneytisins. Ekkert annað ríki hefur farið í aðildarviðræður með eins gagnsæjum og faglegum hætti, vil ég segja, þannig að það er hægur leikur fyrir hv. þingmenn að kynna sér þetta efni ef þeir á annað borð hafa á því áhuga. Allir kjörnir fulltrúar á Alþingi þurfa að gæta hagsmuna Íslands. Þeim ber öllum að gera það, hvort sem þeir eru í þingflokkum stjórnarandstöðunnar eða stjórnarmeirihlutans.

Það vill stundum gleymast í umræðunni að okkur ber öllum sem þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga að gæta hagsmuna landsins okkar á erlendri grundu í hvaða alþjóðasamstarfi sem er. Hvað sem við segjum eða hvernig sem deilurnar liggja í þessum sal ber okkur sóma okkar vegna (Forseti hringir.) að standa saman út á við.