139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Auði Lilju Erlingsdóttur fyrir að taka upp málefni námsmanna í framhaldi af fyrri ræðu minni hér, en að sama skapi get ég ekki þakkað henni fyrir skörulegan málflutning fyrir hönd íslenskra námsmanna sem eru í miklum erfiðleikum. Við þekkjum hvernig aðstæður námsmanna hafa breyst frá því fyrir hrun. Fólk á orðið miklu erfiðara með að sjá fyrir sér samhliða námi, m.a. með því að vinna með því eins og menn gátu svo auðveldlega gert fyrir hrun. Þegar við horfum á þá ísköldu staðreynd að grunnframfærslan er mun lægri en atvinnuleysisbætur og fjárhagsleg framfærsla sveitarfélaga getum við ekki og horft þegjandi á slíka þróun.

Ég hélt að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mundi koma hér upp í þessari umræðu og styðja við þann málflutning að við mundum bæta kjör námsmanna frekar en að guma af því hversu glæsileg frammistaða ríkisstjórnarinnar væri þegar kæmi að kjörum þeirra.

Ég vil líka segja í þessari umræðu um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar að þvílík sjálfumgleði í málflutningi einnar ríkisstjórnar er fáheyrð. Hér er staðreyndin sú að atvinnuleysi á Íslandi er í sögulegu hámarki. Fjárfesting í íslensku samfélagi er í sögulegu lágmarki sem og hagvöxtur. Samt koma hv. stjórnarliðar hér upp og guma sig af glæsilegum árangri, að allt sé á réttri leið. Hvernig er hægt að skrumskæla raunveruleikann með þeim hætti sem hér er gert og halda þeim hræðsluáróðri endalaust til haga að ekkert muni gerast ef einhverjir aðrir haldi um stjórnvölinn hér í landinu?

Við framsóknarmenn mundum halda áfram að endurskoða stjórnarskrána. Við mundum líka vilja endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið. Það er svo ódýr málflutningur að halda (Forseti hringir.) að ef einhver annar kæmi að málum mundi ekkert gerast. Þessi málflutningur gengur ekki upp.