139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fyrirkomulag umræðu um störf þingsins.

[11:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil sömuleiðis koma hér upp og lýsa yfir stuðningi við fundarstjórn virðulegs forseta. Við lendum nú í því, og ég er ekki alveg undanskilinn, að mann verkjar stundum örlítið í eyrun þegar maður gleymir sér og talar of lengi. Við verðum bara að þola það. En af því að ég heyri hér að hv. stjórnarþingmenn eru komnir svo langt, eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, að koma með ritskoðun á þennan lið og að forseti beiti sér fyrir því að menn tali ekki um eitthvað sem hæstv. ríkisstjórn þykir óþægilegt, þá hvet ég bara áfram virðulegan forseta til að halda þingsköp og að allar þessar ritskoðunarhugmyndir komi aldrei til framkvæmda. Það má aldrei verða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)