139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[11:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði í lok 2. umr. um lokafjárlög árið 2009 á miðju ári 2011. Ég vil að það komi skýrt fram að þeir þingmenn sem greiða atkvæði með þessu frumvarpi eru í raun og veru að setja pósitíft ákvæði á ríkisábyrgðir í skilningi ríkisábyrgðarlaga. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning koma tvær alvarlegar athugasemdir um yfirtöku á innstæðum, annars vegar í SPRON og hins vegar í Straumi – Burðarási.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt er þar um pólitíska yfirlýsingu að ræða en ekki um að það sé ríkisábyrgð í skilningi ríkisábyrgðarlaga. Það kom mjög skýrt fram í andsvari hæstv. fjármálaráðherra við hv. þm. Pétur Blöndal sl. haust að hér væri um pólitíska yfirlýsingu að ræða, en þeir hv. þingmenn sem greiða þessu atkvæði eru í raun og veru að setja það ákvæði pósitíft inn á þau ríkisábyrgðarlög sem hæstv. ráðherra hefur hingað til ekki samþykkt að verði gert. Ég vil að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því.