139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[11:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Byggðaáætlun kemur nú í annað skipti til Alþingis. Hún var flutt í fyrra en umræðan kláraðist ekki þá en hún er nú á lokastigum. Það hefur verið góð samstaða í nefndinni við að vinna þær tillögur sem hér eru settar upp. Átta af níu nefndarmönnum leggja til tvær breytingartillögur og átta af níu nefndarmönnum skrifuðu upp á nefndarálitið, að vísu þrír með fyrirvara. Við ræddum það í gær.

Það eru tvær merkilegar breytingartillögur við byggðaáætlunina og það er mjög merkilegt að við skulum ná svo gott sem fullri samstöðu í nefndinni um áætlunina þótt hún sé seint komin fram. En þær tvær breytingartillögur sem fluttar eru eru til mikilla bóta, finnst mér. Það er annars vegar að forsætisráðherra skuli flytja fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar munnlega skýrslu um framgang byggðaáætlunar í upphafi árs 2012, og hins vegar um jöfnun lífsskilyrða, að lífskjör séu sem jöfnust um land allt ásamt frelsi til búsetu. Fyrstu aðgerðirnar eru að við einhendum okkur í jöfnun (Forseti hringir.) húshitunarkostnaðar og flutningsjöfnun vöru fyrir (Forseti hringir.) almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni.