139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu hennar á málinu. Málið er mjög seint fram komið eins og við sjáum og áttum við nú von á því miklu fyrr. Ef ég skildi svör hæstv. ráðherra rétt við spurningum hv. þm. Birgis Ármannssonar var málið unnið í góðri samvinnu við hagsmunaaðila, en það vantar svolítið á það eins og við þekkjum varðandi Vatnajökulsþjóðgarðinn. Ég er búinn að lesa það yfir og það eru nokkrir hlutir sem ég vil fá betri skýringu á.

Í 1. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skal hann hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu tólf mánuðum.“

Það þarf að fá betri útskýringu á því. Þýðir það að veiðimenn þurfi að fara í verklegt skotpróf sem þeir þurfa að greiða fyrir á hverju einasta ári? Það væri gott að fá upplýsingar á því. Það er gríðarlega mikil breyting frá því sem verið hefur á Íslandi, enda æfa skotveiðimenn sig alla jafna að skjóta áður en þeir fara á veiðar því að enginn vill lenda í því að hitta ekki í mark þó að það geti alltaf komið fyrir. Það er nú ekki alveg þannig að hægt sé að búa til það bírókratíska kerfi að hreindýraveiðimenn skjóti frekar en aðrir veiðimenn alltaf beint í mark, það er ekki raunhæft. Það er alveg sama hvað við mundum leggjast í mikla vinnu á hv. þingi, við gætum ekki komið því svo fyrir. Það eru jafnvel þess dæmi að stjórnmálamenn hitti ekki í mark í málflutningi sínum og það er ekkert öðruvísi með þetta mál þó svo að ég telji veiðimenn alla jafna vera betur undirbúna en stjórnmálamenn þó að það sé auðvitað misjafnt.

Síðan er hér ansi umfangsmikil lýsing á því hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að fá leyfi sem leiðsögumaður. Ég tel að það hefði verið skynsamlegt að endurskoða leyfi fyrir leiðsögumenn og það mætti svo sannarlega að skerpa og herða á ýmsu ef svo ber undir, þó svo að ég haldi að þessar tegundir veiða hafi gengið vel. Þeir leiðsögumenn sem eru að störfum núna eru vanir einstaklingar sem þekkja vel bæði til veiða og aðstæðna og það er afskaplega mikilvægt að svo sé áfram.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hversu títt þurfi að endurnýja skotveiðileyfið. Ég get ekki séð það með því að lesa þennan texta hversu oft leiðsögumaður þarf að endurnýja leyfi sitt. Er það á fimm ára fresti, tíu ára fresti eða hvað?

Síðan vekur athygli mína sá þáttur sem kemur fram á bls. 2, með leyfi forseta:

„Vilji leiðsögumaður bæta við sig veiðisvæðum hvort sem er við endurnýjun eða í öðrum tilvikum þarf hann að auki að standast próf í staðháttum á viðkomandi veiðisvæði.“

Það tengist spurningunni varðandi endurnýjunina en þetta virðist vera ansi yfirgripsmikið námskeið og það er svo sem ekkert að því. Hins vegar spyr ég mig hvort það væri ekki æskilegra að í námskeiðinu væru tekin fyrir öll veiðisvæðin. Þegar ég fer yfir frumvarpið sýnist mér að það væri afskaplega skynsamlegt fyrir hv. þingnefnd að fara yfir málið með þeim gleraugun að við séum ekki að búa til óþarfautanumhald og óþarfakostnað og setja skilyrði sem ekki tengjast beinlínis þeim markmiðum sem við viljum öll ná, þ.e. að viðhöfð sé góð veiðimennska og að siðferði veiðimanna sé haft í hávegum. Þegar menn skoða lög og reglugerðir sem eru um þessar veiðar virðist vera að það hafi verið samið af aðilum sem lítið þekkja til. Það er auðvitað ekki gott og þekki ég það ágætlega sjálfur.

Virðulegi forseti. Ég spyr þessara þriggja spurninga: Þarf veiðimaður að fara í verklegt skotpróf á hverju einasta ári og á það þá við um fleiri tegundir veiða? Það er ekkert öðruvísi í eðli sínu að skjóta hreindýr en önnur dýr. Hver verður kostnaðurinn við það og hvernig fer það fram? Um þúsund dýr eru veidd á hverju ári og er talað um að skila eigi inn leyfinu fyrir 1. júlí. Ég held að um tvö þúsund manns sæki um leyfi ár hvert. Það er því afar umfangsmikil starfsemi ef menn þurfa að sækja um og fara í gegnum verklegt skotpróf á hverju ári. Það væru þá tvö þúsund einstaklingar sem þyrftu að fara í skotpróf aftur. Auðvitað hafa allir þeir sem fengið hafa leyfi uppfyllt ákveðnar hæfniskröfur þannig að það er ekki eins og menn séu að gera þetta í fyrsta skipti.

Síðan væri mjög gott, virðulegi forseti, ef hæstv. ráðherra svaraði jafnframt spurningum mínum varðandi leiðsögumennina.