139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[12:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að hæstv. ráðherra skilji að ég gangi svolítið fast eftir þeim vegna þess að oft hafa verið gefin góð fyrirheit sem hafa síðan ekki gengið eftir. Við þekkjum það t.d. varðandi Vatnajökulsþjóðgarð. Ef annað ástand væri í landinu væri mun meiri umræða um það, en við munum ræða það síðar við annað tækifæri.

Ég bið hæstv. ráðherra að vera nákvæmari varðandi tímasetningu námskeiðs. Þetta er svipað svar og ég fékk í haust frá hæstv. ráðherra. Það munar miklu hvort það verður haldið á næstu mánuðum eða í næsta mánuði eða eftir fjóra eða fimm mánuði. Það er mjög mikilvægt að það sé skýrt.

Eftir því sem ég veit best er framkvæmdin þannig þegar veiðimenn fara til veiða: Leiðsögumaður tekur viðkomandi veiðimann í eins konar skotpróf, þ.e. hann er látinn skjóta áður en haldið er til veiða, bæði til þess að stilla byssur og til að kanna hvort veiðimaðurinn sé ekki vel stemmdur gagnvart veiðunum. Þegar slys verða, þ.e. ef menn hitta ekki í mark, er það vanalega af öðrum aðstæðum en að viðkomandi veiðimaður hafi skotið úr byssunni og ekki hitt í mark þegar það er stopp o.s.frv. Ef menn verða að fara í verkleg próf verða að vera til þess aðstæður sem ekki eru alls staðar á landinu. Það er gríðarlegur fjöldi sem þarf að fara í próf samkvæmt tillögunum. Það er örugglega mjög auðvelt að búa til mikið batterí í kringum það með miklum kostnaði. Ef hæstv. ráðherra getur ekki upplýst okkur frekar um hugsunina í því ætla ég að hvetja hv. nefnd til þess að fara vel yfir málið.