139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú svo að réttarbætur kosta sitt. Það verður ekki á allt kosið í þessum efnum vegna þess að annars vegar stöndum við frammi fyrir því að afgreiðslutími og málsmeðferðartíminn er ekki nægur. Það tekur of langan tíma að ljúka málum en á sama tíma sjáum við ekki ástæðu til að búa kærunefndum almennilegt umhverfi svo þær geti klárað sín mál og unnið þau hratt og vel. Það gildir til að mynda um kærunefnd skipulags- og byggingamála sem hefur búið við þröngan kost miðað við þær kröfur sem til hennar eru gerðar.

Það hefur verið, þingmönnum til upplýsingar, lögð mikil áhersla á það við vinnu þessa frumvarps, til að mynda með því að leggja til að þarna verði búin til ein nefnd úr þremur, að horfa í kostnað ríkissjóðs sem til fellur vegna þessa. Ég held að orðfærið sem þingmaðurinn velur hér, að þenja báknið, eigi betur við í einhverjum öðrum ræðum en akkúrat varðandi þetta tiltekna mál.

Þingmaðurinn ítrekar spurningu sína varðandi gjafsókn fyrir dómstólum. Það er ekki um það fjallað sérstaklega í frumvarpinu þannig að það er eitthvað sem verður að kanna og skoða og svara betur. En ég tek undir með þingmanninum að það er spurning sem vert er að halda á lofti við afgreiðslu málsins.