139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af orðaskiptum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hæstv. umhverfisráðherra er rétt að leggja áherslu á að við höfum búið við það ástand að málsmeðferð í sambandi við ýmis kærumál og afgreiðslu slíkra mála í stjórnsýslunni, bæði hjá ráðuneytinu og hjá úrskurðarnefndinni sem vikið hefur verið að, hefur verið allt of langur. Ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa eða deila um það. Ástæðurnar geta verið margvíslegar. Eitt er að sjálfsögðu það sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, að ekki hefur verið séð fyrir fjármagni og mannskap með nægilegum hætti til þess að unnt sé að standa við þá fresti sem þegar eru fyrir hendi í lögum. Það er vandamál sem finna þarf lausn á og verði þessi frumvörp að lögum verður það vonandi gert samhliða.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna í þessu samhengi er að löggjöf á þessu sviði sem varðar skipulagsmál, sem varðar umhverfismál og skyld atriði, hefur verið í mikilli þróun en um leið hefur hún flækst mjög mikið, þ.e. ferlin hafa flækst mjög mikið. Það er atriði sem þarf líka að horfa á í þessu samhengi. Fyrirkomulag þessara mála, fyrirkomulag leyfisveitinga, möguleikar á kærum og annað þess háttar, er allt saman flókið í dag.

Ég hef á tilfinningunni, ég ætla ekki að fullyrða um það fyrir fram, að afleiðingar þessa frumvarps verði fremur til að flækja það en til að einfalda það.