139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek það fram að ég fullyrti ekki mikið í andsvari mínu. Hafi hæstv. umhverfisráðherra þótt einhver undirtónn vera þá kann það að vera rétt vegna þess að þetta er atriði sem ég hef talsverðar áhyggjur af. En ég fullyrði að sjálfsögðu ekki um þetta fyrr en við höfum farið yfir það í nefndinni og metið þessa þætti.

Annað atriði sem við þurfum að meta í umfjöllun nefndarinnar er hversu víðtækar heimildir, þar á meðal kæruheimildir, eiga að vera. Þar þurfum við að horfa á tvennt, þ.e. hversu miklar skuldbindingar felast nákvæmlega í undirritun okkar á Árósasamningnum, þ.e. hvað er nauðsynlegt fyrir okkur að gera til að geta staðfest Árósasamninginn, og síðan er það matsatriði hversu langt við viljum ganga. Um það mun hinn pólitíski ágreiningur væntanlega snúast að einhverju leyti, að menn vilja ganga mislangt t.d. í því efni sem hæstv. ráðherra nefndi „actio popularis“, hinn almenna málskotsrétt, ef við getum orðað það svo. Staðreyndin er sú að aðildarríki Árósasamningsins hafa gengið mislangt, valið mismunandi leiðir við að uppfylla ákvæði samningsins. Eftir því sem mér sýnist við fyrstu athugun er gengið mjög langt í frumvarpinu í þessum efnum miðað við það sem önnur aðildarríki samningsins hafa gert og mun lengra en helstu nágrannaríki okkar hafa gert á þessu sviði. Við í umhverfisnefnd þurfum að fara yfir það og m.a. velta fyrir okkur af hverju (Forseti hringir.) við ættum að ganga lengra en nágrannalöndin hafa gert að þessu leyti.