139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[13:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Með þínu leyfi, segir um þann samning sem hér er undir:

„Árósasamningurinn er ný tegund samnings um umhverfismál. Hann tengir saman umhverfisrétt og mannréttindi. Hann viðurkennir að menn hafi skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum. Samningurinn staðfestir að sjálfbærri þróun verður ekki náð án aðildar allra hagsmunaaðila og tengir saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd. Hann beinir athyglinni að gagnverkandi áhrifum almennings og stjórnvalda í lýðræðislegu samhengi og kveður á um ný ferli varðandi þátttöku almennings í viðræðum um alþjóðlega samninga og framkvæmd þeirra.“

Þó að finna megi að málfari á stöku stað í þessum texta er hann góður vegna þess að hann lýsir fyrir okkur inntakinu og kjarnanum í þeim samningi sem fulltrúar okkar skrifuðu undir árið 1998, en samningurinn tók gildi skömmu síðar. Þau orð sem vitnað var til eru úr greinargerð þingsályktunartillögu núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, um staðfestingu þessa samnings, en eru þangað komin orðrétt úr þingsályktunartillögu þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, þegar hann flutti þingsályktunartillögu árið 2001 um sama mál. Því miður var sú þingsályktunartillaga stöðvuð á þinginu, náði ekki fram að ganga og varð ekki barn í brók í tíð ríkisstjórnarsamstarfsins 1998–2007. Það er athyglisvert t.d. fyrir þann þingmann sem talaði áðan, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að upphafsmaður þessa máls á þinginu skyldi vera flokksmaður hennar, Halldór Ásgrímsson, og einnig fyrir okkur sem stöndum nú í þeim sporum að í þinginu er þessi þingsályktunartillaga til afgreiðslu og það eina mál sem við ræðum nú og er í tvennu lagi.

Hlutar af Árósasamningnum hafa að vísu og sem betur fer komið í íslensk lög á þann hátt að þeir hafa orðið hluti af Evrópugerðum sem við höfum samþykkt hér, sumir þannig að menn hér í salnum samþykktu þá nauðugir viljugir. Tiltekið var í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að samningurinn sjálfur skyldi fullgiltur og leyst úr þeim verkum sem eftir voru við að koma efni hans í íslensk lög.

Aðalmálið sem við fjöllum um núna er að bæta rétt almennings í umhverfismálum, að skapa almennan rétt til kæru í málum á umhverfissviði sem á latínu er kallaður „actio popularis“, eins og komið hefur fram í umræðunni, vegna þess að umhverfismálin komi öllum við. Þótt áfram séu til sértækir hagsmunir gagnvart þeim viðburðum, tíðindum eða aðstæðum sem uppi eru á sviði umhverfismála eru með þessu hinir almennu hagsmunir viðurkenndir. Hinir lögvörðu hagsmunir víkja auðvitað ekki heldur eru almannahagsmunirnir á þessu sviði nú lögvarðir. Það er munurinn. Það er auðvitað mikill áfangi og ber að fagna sérstaklega þeim málum sem hér koma fram, eins því að hér er sem betur fer ekki tekinn sá kostur að líta á málin eins þröngt og hægt er, sem menn hafa því miður stundað við löggjafarstörf á evrópskum eða alþjóðlegum grunni og reynt að flækjast fyrir. Það er t.d. gert í umhverfismatslögunum þar sem réttur til kæru er einangraður við félagasamtök og sett um þau ýmis skilyrði af ástæðum sem ég náði aldrei að skilja á sínum tíma. Meginkjarninn í þessu er sá að réttur hvers manns er viðurkenndur, fylgt er íslenskri hefð í því að virða fáliðann, eins og Einar Benediktsson kvað um, var það ekki, hv. þm. Árni Johnsen? „Vort land er í dögun af annarri öld. Nú rís elding þess tíma sem fáliðann virðir.“ Svo ætla ég ekki að halda áfram (Gripið fram í.) því að afgangurinn af kvæðinu er eiginlega um útrásarvíkinga: „… með víkingum andans, um staði og hirðir.“ Er kannski rétt að geyma það til betri tíma.

Þessu fylgir auðvitað ákveðið regluverk til að tryggja skilvirkan gang mála. Það kemur fram í hinu aðalatriði þessara frumvarpa sem er að einfalda kæru- og ákvarðanaferli í stjórnsýslunni á þessu sviði þar sem ný úrskurðarnefnd leysir af hólmi tvær aðrar og tekur við ýmsum verkefnum annarra stofnana. Það þarf auðvitað að skoða vel. Það þarf að tryggja að nýja nefndin fái aðrar starfsaðstæður en þær sem menn þekkja frá núverandi úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál þar sem mikill fjöldi mála hleðst upp og afgreiðsla þeirra dregst, eins og minnst hefur verið á í umræðunni, og stundum úr hömlu. Þó er ekki við nefndarmenn sérstaklega að sakast.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu, eða öðru frumvarpanna, að hér verði sjö menn að verki en það eru fimm manns í þeirri úrskurðarnefnd sem ég nefndi. Það þarf aðeins þrjá til úrskurðar þannig að það strax gefur vonir um betri og hraðari málsmeðferð. Það þarf líka fé og gott skipulag til að menn nái rétti sínum á þessu sviði bæði vel og fljótt. Það verður til athugunar í þinginu og í umhverfisnefnd og ég vona að okkur auðnist að afgreiða bæði frumvörpin á þinginu núna í vor eða þá í haust, í september. Ég ætla að gera mitt til þess að það geti gengið.

Þá er best að hafa þessa ræðu ekki lengri þó að hún gæti orðið það, í þeirri von að í nefndinni og á þinginu skapist samstaða um þessar framfarir og menn láti niður falla þann ágreining sem um málið hefur verið allt frá árinu 1998 þegar sjálfur Halldór Ásgrímsson bar fram þá tillögu sem nú hefur verið endurnýjuð, um að tengja saman umhverfisrétt og mannréttindi og viðurkenna að menn hafi skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum.