139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[13:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er ekki jafnhræddur og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir um kostnaðinn sem af þessu hlýst. Ég held við fáum hann margfalt til baka í eiginlegum og óeiginlegum gæðum. En orðin „spýta í, setja kraft í, slá í klárinn, stórauka hraða og efla“ eru allt orð sem ég punktaði hjá mér í umræðunni í gær. Öll lýsa þau einbeittum vilja þingmanna til að mjaka okkur upp úr kreppunni og öll eru þau eflaust sögð í góðum ásetningi. Þau voru skrifuð niður handahófskennt eftir þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég er hins vegar ekki viss um að við höfum efni á hraðri endurreisn sama hvað hún kostar. Tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið. Kannski ættum við að gæta okkar sérstaklega vel núna þegar við erum að byggja svo margt upp frá grunni. Það á ekki síst við þegar kemur að umhverfismálum. Það verður að gera allt sem við getum til að þjóna hagsmunum okkar til mjög langs tíma. Hafa verður sjálfbærni að leiðarljósi þar sem markmiðið á að vera gæði, varanleiki og samhengi.

Það er ástæða til að fagna þessu frumvarpi sem leiðir til fullgildingar Árósasamningsins og ég hvet alla þingmenn til að sníða alla hugsanlega vankanta af málinu og afgreiða sem fyrst sem lög. Það sem mér þykir verst er í rauninni að líklega verð ég ekki viðstaddur til að taka þátt í því.

Sú aðkoma sem fullgilding Árósasamningsins tryggir almenningi að málum ásamt aukinni ábyrgð opinberra yfirvalda, mun án efa leiða til betri ákvarðana í umhverfismálum. Hann mun auka mönnum yfirsýn yfir vandamál en ekki síður þá möguleika sem felast í umhverfinu.

Gagnrýnisraddir segja eflaust að samningurinn hafi of íþyngjandi áhrif á málsmeðferð skipulags- og umhverfismála. Það er líka gjarnan sagt að aðalatriði fyrir framkvæmdaaðila sé að ferlið sé sem styst þannig að ekki sé verið að standa í vegi fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Það heyrist ekki síst nú um mundir. Það er fráleitt. Það er einfaldlega of mikið í húfi þegar umhverfið er annars vegar. Aðalatriðið er að allir gangi að því sem vísu hvert ferlið er, að það sé gagnsætt og ábyrgt.

Sé fyrirhuguð framkvæmd umfangsmikil getur undirbúningur ákvörðunar verið tímafrek, þannig er það bara. Nú er það hins vegar ekki svo að réttur almennings í þessum málaflokki sé lítill. Aðkoma hans að ákvarðanatöku í skipulagsmálum er mun betur tryggð en í flestum öðrum málaflokkum. Oft er það hins vegar þannig að almenningi verður fyrst ljós réttur sinn þegar það er orðið um seinan. Úr því getur orðið heilmikill hvellur eins og við þekkjum. Þar er ábyrgð opinberra aðila á að veita fullan aðgang að upplýsingum um umhverfismál mikil.

Stór hluti þess sem Árósasamningurinn tekur til er nú þegar í gildi hér á landi en við eigum eftir að aðlaga okkur síðasta hluta hans. Fullgildingin stórbætir stöðu almennings og félagasamtaka þegar kemur að aðkomu að málum. Það er t.d. mjög líklegt að deilurnar um Kárahnjúka hefðu tekið á sig allt aðra mynd þótt óvíst sé að niðurstaðan hefði orðið önnur en hún varð.

Ég held að ákvæði samningsins um opna aðild almennings að málum þó að þeir eigi ekki lögvarða hagsmuni sé mjög nauðsynlegt. Í aðdraganda íbúakosninganna í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík hefðu félagasamtökin Sól í Straumi fengið allt aðra og betri aðkomu að málinu ef Árósasamningurinn hefði verið virkur hér á landi. Þau hefðu þá verið viðurkenndur hagsmunaaðili og þá fengið aðgang að gögnum sem þeim var neitað um auk fjármagns til að láta vinna ýmsa greiningarvinnu er málið varðar. Auðvitað er opin og gagnsæ málsmeðferð þar sem öll sjónarmið eru skoðuð besta tryggingin fyrir því að réttar ákvarðanir séu teknar. Samningurinn hvetur einnig til vandaðra vinnubragða á öllum stigum málsins, ekki bara um ákvarðanatöku. Þó að það sé ekki beinlínis til umræðu hér finnst mér oft eins og blaðran springi þegar ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmd í stóru máli. Þeir sem börðust gegn henni finnst að baráttan sé töpuð, þeir missa móðinn og hætta eftirfylgni. Útfærslan er hvort sem er oft afgreidd sem einungis spurning um smekk.

Íslendingar eru allflestir vel læsir og stundum köllum við okkur bókaþjóð. Þó að fæst okkar séu bókmenntafræðingar áttum við okkur á því að það er ekki spurning um smekk hvort bók er góð eða slæm ef hún er morandi í mál- og stafsetningarvillum eða ef söguþráður er óskýr, persónur breyta oft um nöfn milli kafla og uppsetningu og bókbandi er ábótavant. Það sama gildir um inngrip mannsins í umhverfið þar sem þar verður að vanda til verka. Vegir, stíflur og önnur mannvirki sem eru hugvitssamlega hönnuð og smekklega komið fyrir í umhverfinu eru auðvitað mun betri kostur en hitt sem er klaufalega staðsett og illa hannað. Það hefur ekkert með smekk að gera. Þess vegna er svo mikilvægt að almenningur sé upplýstur og að honum sé hleypt að málum á öllum stigum.

Við getum ekki verið sammála um allt og ég held að það sé engin ástæða til þess. Umhverfismál verða áfram jafnheitt deilumál og síðustu ár. Það er einmitt þess vegna sem við höfum sérstaklega ríka skyldu til að vanda okkur þannig að þeir sem verða undir í baráttunni hverju sinni hafi á tilfinningunni að leikurinn hafi verið sanngjarn og ekki á þeim brotið. Ég held að við þurfum einfaldlega að fara að venjast því að hlutirnir taki ögn lengri tíma en við höfum viljað hingað til.