139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get vel stutt Árósasamninginn og talaði hlýlega um hann, hygg ég, þegar hæstv. utanríkisráðherra mælti í fyrradag fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu hans. Orð mín í dag snúast um varfærni, ef við getum orðað það svo, og áminningu um að við verðum að vanda okkur og vega og meta rök vel þegar við stöndum að innleiðingu efnisatriða hans í íslenska löggjöf. Þar er eins og komið hefur fram hægt að fara mismunandi leiðir sem taldar eru fullgildar miðað við þá mælikvarða sem lagðir eru í samningnum sjálfum. Aðildarríkin hafa farið mjög mismunandi leiðir, m.a. þær þjóðir sem eru okkar skyldastar að hefð og lagaumhverfi. Áður en við tökum ákvörðun um að ganga lengra en nokkur í kringum okkur hefur gert á þessu sviði þurfum við að fara vel yfir rök og gagnrök í þeim efnum. Ég treysti því að hv. formaður umhverfisnefndar sé mér sammála um að við hljótum að kynna okkur báðar hliðar í þeim efnum. Við hljótum að kynna okkur rök og gagnrök fyrir því að ganga jafnlangt og frumvörpin fela í sér áður en við komumst að niðurstöðu. Ég hygg að við getum verið fullkomlega sammála um þá málsmeðferð þótt við verðum e.t.v. ekki endilega sammála um niðurstöðuna.