139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:13]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ágæt regla að náttúran njóti vafans, en það er líka skylda okkar að hafa eðlilegan aðgang að auðlindum landsins þannig að fólkið í landinu njóti enn frekar vafans. Ég hef einhvern tímann sagt það hér áður að maður á og vill elska landið sitt en maður á að elska fólkið sitt frekar, það er forgangsröðin, vegna þess að ef fólkið getur ekki verið í landinu er engin ástæða til að skipta sér af því í sjálfu sér.

Ég er hræddur um að þau mál sem hér er fjallað um skapi mikla hættu á því að það verði kerfishleðsla. Hvað er kerfishleðsla í þessari merkingu? Kerfishleðsla er að allt verði gert flóknara en eðlilegt og æskilegt er í eðlilegri málsmeðferð þegar menn meta stöðu og kosti landsins þar sem menn vilja grípa inn í og staðsetja hluti til að framleiða, framkvæma eða skapa sterkari stoðir undir það umhverfi sem þeir ætla að lifa í. Það er hætt við því að þessi lög séu fyrst og fremst í farteski embættiskerfisins sem tekur ekki nema takmarkað tillit til reynslunnar og brjóstvitsins sem Íslendingar hafa löngum byggt á. Íslendingar hafa alla tíð verið áhlaupafólk. Það hefur enginn náð að breyta þeirri ímynd Íslendinga í Íslandssögunni. Við áhlaupið fóru Íslendingar frá Noregi og með áhlaupum hafa menn gengið til verka hér endalaust, oftast náð árangri, oft gert mistök — en með áhlaupi. Þessi kerfishleðsla gæti hamlað mjög gegn því að menn vildu freista þess að ráðast í hluti, virkja drifkraftinn, virkja hugmyndirnar og möguleikana til að styrkja landið. Þessi kerfishleðsla er kannski fyrst og fremst til þess að skapa atvinnu í kerfinu, fjölga á básunum sem hafa ákveðna áskrift að launum sínum, ákveðinn forgang að launum og öryggi, en gengur fram hjá þeim sem þurfa að lifa af landinu sjálfu, af verkum með eigin höndum, á ábyrgð sjálfra sín. Þetta er hættan og við megum ekki hlaupa fram úr okkur í þessum efnum. Það hringja strax bjöllur þegar við erum komin fram úr sumum Norðurlöndunum í þessari kerfismótun.

Almennir þættir í landinu sem lúta að því að taka afstöðu til nýtinga á kostum og möguleikum landgæðanna þurfa að hafa viðkomu á yfir 40 áfangastöðum í kerfinu. Með því að fara þá leið sem hv. formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, benti á er ég hræddur um að í rauninni sé verið að snúa þessu við. Það má alltaf búast við slag og deilum í þessum efnum því að menn hugsa misjafnlega til þessara þátta, en mín skoðun er sú að það sé miklu hættulegra og árangursminna að búa til kerfi fyrir fram sem er nánast ómögulegt að komast út úr með endalausum kærumöguleikum sem hafa sýnt sig á undanförnum árum og áratugum í þessum efnum. Þó að ég taki heils hugar undir það að verja þátt náttúrunnar sem er okkar aðalsmerki þurfum við líka að sinna skynseminni í þessu.

Það er í svo mörgu sem undarleg sjónarmið koma inn í þetta í undirbúningi og vinnu. Ég nefni þrjú dæmi.

Síðast fyrir nokkrum vikum var fjallað um stöðu Reykjavíkurflugvallar þar sem um 20 fuglategundir hafa haft varpland. Það varpland hefur minnkað og tegundum fækkað. Enginn gerir athugasemd við það. (Gripið fram í: Reykjavík?) Það er Reykjavík, já. Það gerir enginn athugasemd, virðulegi forseti, við það að við Hellisheiðarvirkjun spúa borholur upp eiturefnum sem lita hús í Reykjavík sjálfri og hafa þau áhrif að fólk sem er viðkvæmt fyrir sveiflum í andrúmslofti svíður í háls og öndunarfæri. Það gerir enginn athugasemd við það af því að það er í Reykjavík. Þannig er því miður hagsmunabaráttan í þessu. Hún er skelfileg. Ég er ekki að draga úr þessum hlutum, ég bendi bara á að það er ekkert samræmi í þessu.

Fyrir mörgum árum var fjallað um náttúru landsins og vörn gegn óeðlilegri aðkomu mannsins inn í þann búskap. Þá vék einn hv. þingmaður, þáverandi formaður umhverfisnefndar, að því að langvíuna, svartfuglinn eins og langvían er í daglegu tali kölluð, mætti ekki veiða nema á ákveðnum tímum og vildi stytta veiðitímabilið. Langvía er meðal hefðbundinna náttúrutegunda sem eru nýttar til manneldis á Íslandi. Það varð að stytta veiðitímabilið vegna þess að langvían átti að hafa rétt til þess að hreinsa hreiður sín að loknu varpi, undirbúa hreiðrið og byggja það fyrir varp að vori. Langvían býr sér hins vegar ekki hreiður, langvían verpir á klöpp. Það er ekki stingandi strá í hreiðri langvíunnar. Næsta rigning eftir að unginn er farinn skúrar gólfið og það er klárt fyrir næsta vor. Það er fullt af svona vanþekkingu og vanhugsun í gangi í þessu kerfi. Ef menn hafa ekki reynslu eða þekkingu á þessum þáttum, svo dæmi séu nefnd, getur ekki komið neitt skynsamlegt út úr því.

Fyrir nokkrum mánuðum upplýsti hv. varaformaður sjávarútvegsnefndar í umræðum hér að það væri stórkostlegt að fyrir þremur árum hefði skötuselur fundist fyrst við Ísland. Það sem meira var um vert, það var m.a.s. byrjað að veiða hann — og það er gleðilegt, sagði varaformaður sjávarútvegsnefndar sjálfrar. Skötuselur byrjaði að veiðast á Íslandi upp úr 1900 og í sívaxandi mæli fram til dagsins í dag. Þegar þetta eru sjónarmiðin á bak við lagasetninguna, þegar þetta er reynslan, verksvitið, skynsemin og þorið er það bjagað. Það er það sem ég er hræddur um í því máli sem hér er rætt um og umhverfisráðherra er hrósað fyrir. Mér finnst alveg ástæða til að hrósa hæstv. umhverfisráðherra en ekki fyrir hvað sem er. Þegar upp koma flækjur og flækjumöguleikar hrósa ég engu fyrir fram. Mér finnst augljóst að við erum að keyra fram úr til að mynda Norðurlöndunum, við erum að gera ferlið miklu flóknara, ekki kannski 40 viðkomustaði í að taka afstöðu til mála heldur 400. Hvað kemur út úr því? Hvaða kostnaður kemur út úr því fyrir þjóðfélagið í öllum nefndunum, öllum vangaveltunum, öllum sérfræðingunum, allri sérmenntuninni sem fer í að hafa eftirlit og forsjá með öðrum án þess að horfast í augu við reynsluna, verksvitið og náttúrulega þekkingu? Það er kerfi sem verður ekki brúklegt til framtíðar, það verður flækjufótur. Það verður mjög erfiður flækjufótur. Þeir sem þekkja til við sjávarsíðuna vita að línan getur flækst hrikalega. Það getur verið mjög erfitt að leysa úr því þó að handlagnir sjómenn læri það. En það byggist líka á reynslunni. Það byggist á verksvitinu.

Þá þurfum við að gæta þess, virðulegi forseti og hæstv. umhverfisráðherra og væntanlegur samgönguráðherra, að skapa þann farveg að hann verði skynsamlegur, verði fljótvirkur eins og hv. formaður umhverfisnefndar nefndi í ræðu sinni en ég er hræddur um að standist ekki tímans tönn. Áður þarf þó að meta marga þætti í þessu, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á. Þetta er ekki bara varfærni. Þetta er ekki varfærni íhaldsmanna úr öllum flokkum, ekki varfærni framsóknarmanna úr öllum flokkum, þetta er varfærni þeirra sem vilja taka tillit til þess að hlutirnir séu unnir á skynsamlegan hátt.

Ég minnist þess að einhverju sinni hafi verið stöðvað af fyrrverandi umhverfisráðherra að hleypa umferð í Dyrhólaey um veginn úr Dyrhólahverfinu. Rökin voru þau að það var eitt kolluhreiður á leiðinni, 70 metra frá veginum. Hvaða glóra er í þessu? Það er engin glóra í þessu, ekki frekar en þegar umhverfisráðherra tók af skarið og stöðvaði lendingar lítillar smávélar á Skeiðarársandi við Skaftafell vegna þess að það væri flugnabúskapur á sandinum, þessari víðáttu Skeiðarársands. Við erum alltaf að reka okkur á alls konar gildrur. Við skulum ekki rækta neikvæðnina til þess að nýta auðlind lands og sjávar á eðlilegan hátt.

Það er mikilvægt eins og hv. formaður umhverfisnefndar sagði að samstaða náist vonandi að lokum í meðferð mála. Fyrr getur dauðinn dottið inn í málið með svona kerfi ef það gengur eftir eins og ótti minn kallar fram. Ef menn taka til máls til að draga úr með neikvæðni, (Forseti hringir.) búa til breytingar til að tefja fyrir eðlilegri niðurstöðu, er það ekki af hinu góða.