139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:28]
Horfa

Ósk Vilhjálmsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir afar athyglisverða ræðu. Það er nefnilega mjög gott að fá þetta fram, þetta er mikilvægt og áhugavert og virkilega gott að finna hvað hann ber hag skötuselsins, langvíunnar og fólksins í landinu fyrir brjósti, Vatnsmýrarinnar líka.

Ég hnaut um nokkur orð sem ég hripaði hjá mér meðan hann lýsti þjóðinni, að hún hafi keyrt áfram á brjóstviti og að þetta sé áhlaupafólk. Hann talar líka um ímynd Íslendinga og að óvinir þessara góðu eiginleika séu kerfishleðsla, flækjur, flækjufótur og gildrur. Það er sem sagt ýmislegt áhugavert á ferðinni.

Ef við byrjum bara á brjóstvitinu, hvað hefur það fært okkur? Brjóstvit áhlaupafólks, hvað hefur það gert fyrir ímynd Íslendinga? Ég mundi segja að þetta væru þau atriði sem hefðu verið hvað hættulegust. Við eigum ekki að vinna með brjóstvitinu, við þurfum að gera og standa við alþjóðlega samninga. Ég mundi segja að það vantaði meira regluverk og fleiri flækjufætur vegna þess að brjóstvit áhlaupafólks er ekki það sem við þurfum, sérstaklega ekki nú á þessum síðustu tímum.