139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka afar góða og gagnlega umræðu um þetta mikla framfaraskref í umhverfismálum á Íslandi, aukinn rétt almennings til aðkomu í umhverfismálum og aukinn rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Þetta er nefnilega lagabót sem snýst ekki bara um orðanna hljóðan, heldur ekki síður um grunnstoðir sjálfbærrar þróunar. Þetta snýst um heildarsýn, hagsmuni heildarinnar og komandi kynslóðir. Þetta snýst, eins og hér hefur komið fram í ágætum ræðum þingmanna, um það að bæta yfirsýnina, auka gæði, vandvirkni, yfirvegun og ábyrgð.

Að sumu leyti stangast það á við það sem hér hefur verið sagt um þjóðareðli og áhlaup en ég er ekki frá því að þetta geti farið saman, þ.e. kraftur og bjartsýni með fyrirhyggju, vegna þess að ef maður hleypur beint af augum er hætt við því að maður hlaupi fram af bjarginu. Og það ættu Eyjamenn að vita. (ÁJ: Við hlaupum ekki fram af björgum.)

Það hefur mér líka fundist áhugavert vegna þess að hér höfum við fyrst og fremst rætt það þar sem við erum hér að leggja til að gengið sé lengra en nágrannaþjóðir okkar gera, þ.e. Norðurlandaþjóðir, og við höfum að jafnaði borið okkur saman við Norðurlöndin. Það er dálítið umhugsunarefni að menn staldri við það sem erfiða tilhugsun að við göngum einu sinni lengra en gert er annars staðar á Norðurlöndunum í átt til lýðræðis og sterkrar og öflugrar aðkomu almennings. Er ekki ágætt fyrir Ísland í ljósi alls og alls að við séum fyrsta þjóðin á Norðurlöndum sem opnum aðildina í anda Árósasamningsins?

Ég kom að því fyrr í dag í andsvörum að opin kæruaðild er tilfellið í nokkrum löndum Evrópu, m.a. í Portúgal, í miklu fleiri greinum en umhverfismálum. Þar erum við líka að tala um menningararfinn og mér finnst umhugsunarefni hvort menningararfurinn ætti líka að vera hluti af því sem kallaði á opna kæruaðild. Hver hefur lögvarða hagsmuni af því að verja menningararfinn ef ekki hver einn og einasti Íslendingur? Á Spáni er opin kæruaðild líka tilfellið, til að mynda um ákvarðanir á ströndum og ákvarðanir sem varða framkvæmdir í þjóðgörðum. Þá er gert ráð fyrir að allur almenningur hafi kæruaðild. Í Bretlandi og á Írlandi líka eru hagsmunirnir túlkaðir það vítt í lögum að það jafnast nánast á við opna kæruaðild.

Þetta er með ýmsu móti í Evrópu eins og komið hefur ágætlega fram í umræðunni og ég held að við gætum verið vel sæmd og stolt af því að stíga kjarkmikil skref í þeim efnum að kæruaðildin sé sem opnust hér á landi.

Menn tala hér með ýmsu móti um kerfi, hindranir, stopp og allt þetta en það sem við segjum með opinni kæruaðild er einmitt að ekkert kerfi hindri neinn í að mega eiga aðild að framkvæmd. Það er ekkert kerfi sem segir að hann þurfi að vera aðili í félagi, eiga aðliggjandi land eða lóð eða neitt slíkt, heldur bara það að hann telji farið á svig við réttindi umhverfis og náttúru. Þá getur sá hinn sami lagt fram kæru. Einhvern tímann hefði maður haldið að þeir sem tala fyrir hagsmunum einstaklingsins og hafa þá hugsjón brennandi í brjósti mundu fagna slíkri nálgun í þessum efnum, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem er kannski mikilvægast í þessu öllu saman og hefur svo sem verið nefnt aðeins er að við verðum með einhverju móti að koma okkur inn í þá tilveru hér á Íslandi, einmitt vegna þess að við byggjum alla okkar afkomu á auðlindunum, að draga úr því að ákvarðanir þurfi að byggjast á yfirgangi gagnvart t.d. náttúrunni, samfélaginu eða náttúruverndarsamtökum. Við getum ekki haldið áfram að byggja á auðlindunum öðruvísi en að snúa baki við átakanálguninni. Við þurfum að nálgast hlutina meira í sátt og Árósasamningurinn er hluti af þeirri sátt vegna þess að þá er almenningur með aðkomu að málinu alla leið, er upplýstur, hefur möguleika til þátttöku og getur komið niðurstöðunni til stjórnvalda eða dómstóla ef viðkomandi telur hitt ekki farsæla niðurstöðu.

Ég sé að einhverjir hyggja hér á andsvör en mig langar alveg í lokin að nefna vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Árna Johnsens, að við þrífumst ekki án náttúrunnar. Maðurinn þrífst ekki án náttúrunnar, við erum ekkert merkilegri en það að við erum háð náttúrunni í einu og öllu. Við getum ekki án hennar verið. Það hljómar kannski hversdagslega, en hin hliðin er sú að náttúran getur án okkar verið. Til þess að við höldum áfram að lifa í sátt við náttúruna þurfum við að gera það á grundvelli þekkingar, rannsókna og yfirvegunar. Ef við höldum áfram að bretta upp ermarnar og rífa til okkar það sem okkur hentar, grípa inn í vistkeðjurnar hverja á fætur annarri eins og okkur þóknast er vandinn einfaldlega miklu meiri en svo að við ráðum við hann. Við verðum að ganga hægt um gleðinnar dyr og við verðum að umgangast náttúruna af varfærni. Árósasamningurinn er þáttur í því ábyrgðarsamspili.