139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu sína hér áðan. Ekki deili ég við hæstv. ráðherra um að við þurfum að ganga vel um náttúruna og náttúruauðlindirnar. Það er ekki pólitískt deilumál á milli aðila hvernig umgangast eigi auðlindir eða náttúru. Forustuhlutverk sveitarstjórnarmanna og sveitarstjórna voru tekin á Snæfellsnesi með Staðardagskrá og upptöku sjálfbærrar þróunar. Það var gert undir forustu sjálfstæðismanna í þeim sveitarstjórnum, en að sjálfsögðu eiga tveir einstaklingar sem leiddu þá vinnu mestan heiður, þ.e. Guðrún Bergmann og Guðlaugur Bergmann heitinn. Þau leiddu sveitarstjórnarmennina með sér í þá för og stjórnuðu sjálfstæðismenn þeim sveitarfélögum öllum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Annars vegar það sem kom fram um að við gengjum lengra en aðrar Norðurlandaþjóðir gera við upptöku á samningnum. Hverja telur hæstv. umhverfisráðherra vera ástæðuna fyrir því að aðrar Norðurlandaþjóðir hafi ekki gengið svo langt? Hins vegar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem við þekkjum úr úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, að áætlað sé að nefndin taki fjórar til átta vikur í málið eftir því hversu umfangsmikið það verður. Erum við alls staðar langt, langt á eftir í dag? Skilafresturinn er allt upp í tíu sinnum lengri en sagt er til um í reglugerð. Nú þykir mér einsýnt, án þess að ég ætli að fullyrða um það, að kærumálum muni fjölga. Hver er skoðun hæstv. ráðherra? Telur hæstv. ráðherra ekki skynsamlegra að við komum því kerfi sem við vinnum eftir í dag í betri farveg áður en við fjölgum hugsanlega kærum (Forseti hringir.) án þess að geta staðið við þá tímaramma sem við höfum nú þegar?