139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Hann spyr annars vegar um af hverju sé gengið skemmra annars staðar á Norðurlöndunum en við hyggjumst ganga með þessu frumvarpi. Það veit ég ekki. Ég er ekki með röksemdir annarra Norðurlandaþjóða fyrir þeirri niðurstöðu sem þær komast að en ég er hins vegar með, eins og ég hef áður getið í umræðunni, yfirlit yfir hve mismunandi þetta er eftir löndum og sum lönd hafa gengið lengra en önnur. Við höfum farið yfir þetta, bæði ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarmeirihlutans, og teljum okkur vel sæmd af því að ganga langt í þessum efnum og opna aðildina.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um afgreiðslutíma eða málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er það rétt sem hann segir og það er sú togstreita sem við drápum aðeins á fyrr í umræðunni. Það togast svolítið á í okkur annars vegar að við viljum að nefndirnar vinni hraðar og úrskurðirnir komi á þeim tíma sem þeir eiga að gera en hins vegar höfum við verið treg við að búa þessum nefndum og úrskurðaraðilum viðunandi starfsumhverfi með bæði fé og starfsfólki til að geta unnið almennilega. Ég hef aðeins verið að glíma við það varðandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála að auka fjárheimildir þangað inn, sem er nauðsynlegt til þess að nefndin geti unnið verk sín.

Ég tel til mikillar hagræðingar að úrskurðarnefndir skipulags- og byggingarmála og hollustuhátta og mengunarvarna sameinist undir þessari nýju nefnd, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.