139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hvet hins vegar hæstv. ráðherra til að kynna sér það sérstaklega hvers vegna aðrar Norðurlandaþjóðir hafa ekki gengið eins langt og við ætlum að ganga með því að innleiða Árósasamninginn. Ekki að ég telji að aðrar Norðurlandaþjóðir eigi að veita okkur leiðsögn en ég held að það sé ágætt fyrir hæstv. ráðherra og ráðuneytið að kynna sér þetta og vænti þess að umhverfisnefnd muni gera það.

Mínar heimildir segja að Hollendingar hafi til að mynda gengið svipað langt og við hyggjumst gera núna með samninginn en þeir hafi snúið af þeirri braut. Nú veit ég ekki alveg hvort þessar heimildir eru alveg 100% réttar eða hvort það sé sambærilegt hvernig þeir ætluðu að innleiða samninginn en ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað. Eftir því sem ég best veit er aðkoma almennings að þessum hlutum ágæt í dag. Það getur vel verið að það megi bæta eitthvað úr því, ég ætla ekki að kveða upp úr um það. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að það verði skoðað í meðförum nefndarinnar.

Það sem hæstv. ráðherra kom inn á og batt vonir við var að þetta mundi skána þegar það yrði sameinað undir eina nefnd. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að svo verði en ég vænti þess að það verði þá niðurstaðan því að við setjum oft reglur og annað sem á að fara eftir en því er síðan ekki framfylgt. Það er náttúrlega mjög slæmt frá báðum hliðum séð því að fyrir þá aðila sem hafa tækifæri til þess að koma ábendingum sínum á framfæri og eru hugsanlega að fara í framkvæmdir, hvort sem það er Vegagerðin eða hver sem það er, er óþolandi og ólíðandi að það skuli taka svona langan tíma. Það þarf líka að samræma þessa hluti þannig að þegar menn fara af stað í framkvæmdir þá gangi sveitarfélögin og ríkisvaldið og allir aðrir í takt. Það hefur verið misbrestur á því á undanförnum árum og er mikilvægt að það verði lagað.